Vodafone og Nova mega reka dreifikerfi fyrir farsímaþjónustu sína saman, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Fyrirtækin óskuðu eftir því að þau fengju undanþágu til þess að stofna sameiginlegt félag utan um þennan rekstur.
Tilkynnt var um að stofna ætti félag utan um sameiginlegt dreifikerfi í jafnri eigu Vodafone og Nova í nóvember 2013. Þá kom fram að undirbúningsvinna hefði staðið yfir um hríð með vitneskju Samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá kom fram að með sameiningu dreifikerfa fyrirtækjanna myndu skapast mikil tækifæri til stækkunar og að verulegt hagræði næðist fram í fjárfestingum og rekstri auk þess sem uppbygging og þétting kerfisins yrði hraðari en annars.
Samkeppniseftirlitið setur ákveðin skilyrði fyrir því að fyrirtækin fái að eiga með sér samstarf um rekstur farsímadreifikerfisins, en skilyrðin eiga að vinna gegn því að samstarfið hafi áhrif á samkeppnina sem fyrirtækin eiga að eiga í á mörkuðum fyrir farsímaþjónustu.
Meðal annars eiga fyrirtækin að tryggja að stjórnendur þeirra geti ekki setið saman í stjórn nýja félagsins og koma í veg fyrir að samvinnan í þessu máli geti orðið til frekara samstarfs sem myndi skaða samkeppni. Þá eiga stjórnendur og lykilstarfsmenn rekstrarfélags dreifikerfisins að vera óháðir.
Fleiri skilyrði eru sett og segist Samkeppniseftirlitið í tilkynningu til fjölmiðla muna birta ákvörðun sína um málið á heimasíðu sinni á næstunni. Þar verðu settur fram rökstuðningur og nánari skýringar á skilyrðunum sem sett eru fyrir ákvörðuninni.
Vodafone hagnaðist um yfir milljarð í fyrra
Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone, skilaði árshlutareikningi fyrir fjórða ársfjórðungs ársins 2014 í dag. Þar kom fram að hagnaður félagsins á síðasta ári haf numi 1,1 milljarði króna í fyrra og jókst hann um 29 prósent á milli ára. Það er í fyrsta sinn sem félagið skilar hagnaði yfir milljarð króna.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna þessa er haft eftir Stefáni Sigurðssyni, forstjóra félagsins að arið 2014 hafi um verið um margt sérstakt. "Fyrri hlutinn einkenndist af mikilli innri vinnu í tengslum við innviði og öryggismál félagsins en seinni hlutinn af sókn á fjölmörgum sviðum á sama tíma og ágætur árangur náðist á kostnaðarhliðinni."