Eitt vita þeir sem skulda verðtryggt húsnæðislán: Á tímabilum hefur lánið hækkað, þrátt fyrir að skilmerkilega hafi verið greitt af því afborganir og vexti. En hvað nákvæmlega er verðtryggingin?
Hún var til umfjöllunar í sjötta og síðasta þætti Ferðar til fjár sem sýndir voru á RÚV og eru nú aðgengilegir hér. Þeir Breki Karlsson og Helgi Seljan fjölluðu þá um vöffin þrjú, það eru verðbólga, verðtrygging og vextir.
Verðtrygging þýðir að fjárhagslegar skuldbindingar, bæði sparifé og lánsfé, halda verðgildi sínu þrátt fyrir breytingar á verðlagi. Með öðrum orðum er sá sem leggur inn eða lánar peninga að tryggja það að hann fái jafngildi fjársins til baka.
Hvers vegna vilja lánveitendur þá verðtryggja lánin? Það er vegna þess að króna í dag er ekki endilega jafngild krónu á morgun, hvað þá krónu eftir 25 ár. Verðbólgan rýrir verðgildi krónunnar, minna fæst fyrir hverja krónu en áður, en með því að verðtryggja lán eða innstæðu er það tryggt að upphæðin haldi verðgildi sínu.