Saksóknarar í Þýskalandi hafa hafið rannsókn á Martin Winterkorn, fráfarandi forstjóra bílaframleiðandans Volkswagen, í tengslum við útblásturshneyksli sem fyrirtækið hefur verið staðið að. Rannsóknin á Winterkorn snýr að sölusvikum, þar sem hann hafi vísvitandi leyft sölu bíla með hugbúnaði sem falsaði útblásturstölur. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og í Suður-Kóreu hafa einnig sagst ætla að rannsaka málið, auk þess sem hópmálsókn er í undirbúningi af hálfu viðskiptavina.
Winterkorn sagði af sér vegna málsins á miðvikudag í síðustu viku eftir níu ára setu á forstjórastóli og á föstudag var tilkynnt að Matthias Müller yrði nýr forstjóri, en hann hefur undanfarið verið forstjóri Porsche, dótturfyrirtækis Volkswagen.
Ráðgjafahópur hluthafa í Volkswagen kallaði eftir því í dag að ráðist yrði í allsherjarbreytingar á stjórnarháttum fyrirtækisins. Ráðningin á Müller hefur verið gagnrýnd, enda sé hann innanbúðarmaður hjá fyrirtækinu og með ráðningu hans hafi glatast tækifæri til nýs upphafs hjá fyrirtækinu.
Í morgun viðurkenndi Audi, sem er líka dótturfyrirtæki Volkswagen, að 2,1 milljón Audi-bíla hefðu einnig verið búnir þessum hugbúnaði. Um 1,4 milljónir bíla eru í Vestur-Evrópu, þar af tæplega 600 þúsund í Þýskalandi, og um 13 þúsund bílar eru í Bandaríkjunum. Meðal þeirra bíltegunda sem hafa hugbúnaðinn eru A1, A3, A4, A5, A6, TT, Q3 og Q5 bílarnir.
Tvö þýsk dagblöð greindu frá því um helgina að starfsfólk og einn birgi fyrirtækisins hefðu varað við því fyrir mörgum árum síðan að verið væri að nota hugbúnaðinn, sem greindi þegar verið var að útblástursprófa bíla.
Hlutabréf í Volkswagen höfðu fallið um fimm prósent í kauphöllinni í Frankfurt í morgun, til viðbótar við miklar lækkanir í síðustu viku þegar skandallinn komst upp.