Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen, sem nýlega varð uppvís að meiriháttar svindli á útblástursprófunum, skilaði 3,48 milljarða evra tapi á þriðja ársfjórðungi 2015. Upphæðin er jafnvirði tæplega 500 milljarða króna. Til samanburðar nam heildarverðmæti alls vöruútflutnings Íslands á árinu 2014 um 590 milljörðum króna.
Þetta er í fyrsta sinn í meira en 15 ár sem bílaframleiðandinn skilar rekstrartapi. Uppgjör félagsins var birt í dag.
Hlutabréf í Volkswagen hækkuðu um meira en þrjú prósent við birtingu uppgjörsins. Það getur bent til þess að fjárfestar hafi verið reiðubúnir enn verra uppgjöri, auk þess sem sala á bílum jókst milli ára um 5,3 prósent.
Markaðsvirði félagsins hefur lækkað um 21 milljarða evra frá því að upp komst um svindlið í september síðastliðnum, að því er greint er frá í umfjöllun Bloomberg um uppgjörið. Samkvæmt árshlutareikningnum þá hefur kostnaður vegna hneyklisins verið um 6,7 milljarðar evra til þessa, sem er meira en þeir 6,5 milljarðar evra sem félagið lagði til hliðar til að mæta mögulegum kostnaði. Sérfræðingar telja að heildarkostnaður muni á endanum nema um 20 milljörðum evra, tilkomin vegna lögsókna, sekta og lagfæringa á um ellefu milljón ökutækjum Volkswagen.
Þann 18. september komst upp um meiriháttar svindl Volkswagen á útblástursprófunum með ólöglegum hugbúnaði. Yfirvöld í bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hófu þegar rannsókn á málinu. Hér má lesa fréttaskýringu Kjarnans um hvað Volkswagen gerði rangt.