Sorglegt er að fylgjast með því hvernig Lögmannafélag Íslands hefur haldið á spilunum í máli sem snýr að mati á umsækjendum um stöðu Hæstaréttardómara. Lögmannafélag Íslands, dómstólaráð og Hæstiréttur telja ekki að þau séu bundin af jafnréttislögum þegar kemur að því að skipa í dómnefnd sem metur hæfi umsækjenda, en í henni sitja fimm karlar.
Félag kvenna í lögmennsku mótmælti þessari túlkun og er afar ósátt við Lögmannafélag Íslands í málinu. Svo virðist sem málið hafi enga umræðu fengið innan félagsins, þegar þrýst var á um það að eingöngu karlar myndu sitja í dómnefndinni, sem varð raunin að lokum.
Svona á ekki að koma fram við konur í siðuðum samfélögum, og svona á ekki að túlka lög og teygja, þar sem markmiðið um jafnrétti er alveg skýrt og öllum ljóst. Óskiljanlegt er að einhverjum hafi þótt það skipta sköpum, að eingöngu karlar væru í dómnefndinni. Konur eru í miklum minnihluta í lögmannasamfélaginu og kannski hefur sú karllæga sýn truflað þá sem sitja við háborð Lögmannafélagsins. Vonandi læra þeir - sannarlega þeir - af þessum augljósu og alvarlegum mistökum.