Á næsta rúma áratug stendur til að ráðast í samgönguframkvæmdir fyrir 120 milljarða króna á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga frá árinu 2019.
Fjármögnun þessara miklu framkvæmda, sem fela m.a. í sér 52,2 milljarða fjárfestingu í stofnvegaframkvæmdum og 49,6 milljarða fjárfestingu í innviðum Borgarlínu, nýs hágæða almenningssamgöngukerfis, er þannig að ríkið ætlar að koma með 30 milljarða að borðinu, sveitarfélögin saman með 15 milljarða, auk þess sem áætlanir gera ráð fyrir að 15 milljarðar króna fáist fyrir ráðstöfun Keldnalandsins.
Þá standa heilir 60 milljarðar króna eftir, eða 50 prósent alls þess fjármagns sem áætlað er að renni til samgöngubótanna í Stór-Reykjavík á næsta rúma áratug. Þessi hluti fjármögnunarinnar á að nást í kassann með svokölluðum flýti- og umferðargjöldum, sem enn hafa ekki verið útfærð.
Samtalið hafið
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf., sérstaks félags í eigu ríkis og sveitarfélaga sem stofnað var til þess að halda utan um framkvæmdirnar í samgöngusáttmálanum og fjármögnun þeirra ræddi þessi mál aðeins á morgunfundi sem Vegagerðin stóð fyrir í gær.
Hann kom því þar á framfæri að hlutverk Betri samgangna væri eingöngu það að innheimta gjöldin fyrirhuguðu, en fyrst þyrftu stjórnmálamenn að útfæra hvernig gjöldin yrðu og setja fram lagafrumvarp sem heimilar þessa gjaldtöku á Alþingi.
Í erindi sínu sagði hann að samtal væri hafið milli sveitarfélaga, ríkisins og Betri samgangna um útfærslu tillagna að þessum gjöldum og bætti svo við að vonandi yrði hægt að kynna það „fljótlega“.
Stóru spurningunum þurfi að beina til pólitíkusana
Undir lok fundarins fékk Davíð svo spurningu sem varðaði leiðir til þess að hafa áhrif á umferð á annatímum, eins og til dæmis bílastæðagjöld, skattkerfisbreytingar eða ívilnanir.
„Þetta kannski tengist þessari umræðu um flýti- og umferðargjöld, sem er bara að fara af stað. Þetta líka tengist því að það eru að eiga sér stað orkuskipti í samgöngum og eins og ríkið orðar það er það að verða af miklum tekjum út af því, bensín- og olíugjöldin eru að renna sitt skeið á enda og ég held að flestum þyki sanngjarnt að þeir sem nota þessa innviði borgi að einhverju leyti fyrir þá.
Að þessu leyti tengist þetta okkur, því okkur hjá Betri samgöngum er ætlað að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu þegar komin er löggjöf um það, en stærri spurningunum í þessu er kannski betra að beina til pólitíkusana frekar en okkar, embættismannanna,“ sagði Davíð, í svari sínu.