„Ég skal fúslega viðurkenna að ég er sorgmæddur og dapur að sjá fólk sem ég taldi vera góða vini mína stinga mig í bakið með því að segja að ég hafi nánast framið „glæp“ með þessum samningi. Samningi sem gildir í rétt rúmt ár með launahækkunum til þeirra sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði, hækkunum sem ekki eiga sér hliðstæðu hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar.“
Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. Samningurinn sem náðist í gær við Samtök atvinnulífsins sé „sá langbesti sem ég hef komið að á mínum 20 árum sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni, hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar“. Það sé „staðreynd sem enginn getur andmælt“.
Vilhjálmur fer ítarlega yfir forsendur hins nýja samnings í færslu á Facebook-síðu sinni. Þá svarar hann einnig gagnrýni formanns Eflingar sem fram hefur komið í dag.
Sautján af nítján aðildarfélögum Starfsgreinsambandsins undirrituðu samninginn. Tvö aðildarfélög, Efling og Verkalýðsfélag Grindavíkur, eru ekki aðilar að honum.
Vilhjálmur segir að hann og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, séu sammála um að lífskjarasamningurinn frá árinu 2019 hafi verið mjög góður. Í því ljósi „skil ég ekki þessa gagnrýni á nýjan samning SGS sem inniheldur á þessum stutta samningstíma mun meiri launahækkanir en fengust í lífskjarasamningnum“.
Þótt Efling hafi ákveðið að standa utan við kjaraviðræður SGS og SA segist Vilhjálmur hafa haldið Sólveigu Önnu upplýstri um framvinduna allan tímann.
„Ég veit hins vegar að upplýsingum var lekið til fjölmiðla meðan viðræður okkar voru á viðkvæmu stigi og markmiðið getur ekki hafa verið annað en að skemma þá vinnu sem við vorum að vinna að og afvegaleiða það sem verið var að semja um,“ skrifar Vilhjálmur. „Ég veit líka að haft var samband við allavega tvo formenn innan SGS og þeir beðnir um að skrifa ekki undir nýjan samning. Hver var tilgangurinn annar en bara að eyðileggja það sem við vorum að gera.“
Félögin „yfir sig ánægð“
Hann segir það hafa legið fyrir að þau aðildarfélög sem skiluðu umboði til félagsins hafi verið „yfir sig ánægð með innihaldið og kom fram á formannafundi að þau hafðu ekki séð svona launahækkanir til handa verkafólki. Ég sem formaður samninganefndar SGS fékk fullt umboð frá öllum um að ganga frá þessum samningi og því kom það á óvart að sjá að annað af þessum aðildarfélögum sem haft var samband við dró umboð sitt til baka.“
Hann segist virða þá ákvörðun Eflingar að vera ekki með í samflotinu. „Því er það svo sorglegt hjá aðilum sem kusu að vera ekki í samfloti að gagnrýna þá niðurstöðu sem SGS komst að, en að okkar mati er þetta gríðarlega góður samningur sem er framlenging á lífskjarasamningum.“
Áhersla á að ná samningum fljótt
Hvað samninginn sjálfan varðar segir Vilhjálmur að „gríðarleg áhersla“ hafi verið lögð á að ná nýjum samningi við Samtök atvinnulífsins „hratt og vel“ og að launahækkanir þær sem samið var um myndu gilda frá 1. nóvember í ár, með öðrum orðum nýr samningur myndi taka við af þeim sem var að renna sitt skeið“.
Mat samninganefndar SGS hafi verið það að lágtekjufólk sem er á töxtum „gæti alls ekki beðið eftir launahækkunum til að mæta þeim gríðarlegu kostnaðarhækkunum sem hafa dunið á lágtekjufólki sem og öðru launafólki“.
Hagvaxtarauki, sem samið var um í lífskjarasamningunum, er, eins og orðið ber með sér, tengdur hagvexti. „Núna liggur orðið nokkuð ljóst fyrir að hann mun skila 13.000 kr. hækkun sem átti að koma til útborgunar 1. maí 2023,“ skrifar Vilhjálmur.
Það hafi verið „skýlaus krafa Samtaka atvinnulífsins“ að þessi upphæð yrði kostnaðarmetin á þeim rökum að um væri að ræða kostnaðarauka fyrir fyrirtækin sem kæmi á árinu 2023. Þessu hafnaði SGS algerlega, skrifar Vilhjálmur, enda búið að semja um þennan hagvaxtarauka.
Málamiðlanir
Því þurfti að finna málamiðlanir og ein leið var að flýta hagvaxtaraukanum þannig að hann kæmi fyrr inn til hækkunar launa. „Um þetta var deilt fram og aftur og SA bauð okkur að flýta honum til 1. mars 2023 en því höfnuðum við algerlega og svona gekk þetta lengi. Að síðustu buðu þeir okkur að hann kæmi inn 1. janúar en við sögðum ef það á að kostnaðarmeta hagvaxtaraukann þá verður hann að gildi frá 1. nóvember 2022 eins og allar launahækkanir. Okkur tókst þetta eftir gríðarleg átök um þennan þátt samningsins og með því að flýta honum sex mánuði þá skilar hagvaxtaraukinn 78.000 kr. aukalega þar sem ekki þarf að bíða eftir honum til 1. maí 2023.“ Þetta mun, að sögn Vilhjálms, skila aukahækkun sem nemi 5.200 kr. á samningstímanum fyrir taxtafólk og mun hann að auki skila hærri álgasgreiðslum fyrir vaktavinnufólk. „Og munið að hagvaxtaraukinn er ekki eingreiðsla heldur kemur hann ofan á kauptaxta til frambúðar.“
Vilhjálmur segir að samkvæmt samningnum fái fólk með fimm ára starfsreynslu launahækkun sem nemi 40 þúsund kr. á mánuði án hagvaxtarauka og frá 50.000 kr. upp í 52.000 kr. með flýttum hagvaxtarauka. „Hvenær hafa svona launahækkanir komið til lágtekjufólks, mitt svar er skýrt - aldrei!“
Með gríðarlegri vinnu, þar sem allir lögðu hart að sér, hafi tekist að ná samningi sem komi „til móts við þær miklu kostnaðarhækkanir sem dunið hafa á launafólki undanfarið. Það tókst án átaka,“ skrifar Vilhjálmur.
„Það er einnig mikilvægt fyrir alla sem ekki þekkja til kjarasamningsgerðar að stéttarfélögin eru ekki að semja við sig sjálf,“ heldur hann áfram. „Við erum með viðsemjanda sem er í þessu tilfelli Samtök atvinnulífsins og ef fólk heldur að það sé auðvelt að semja við Halldór Benjamín og hans fólk þá veður fólk villu vegar.“
Náðu 54 prósent af kröfunni 2019
Hann rifjar upp að krafa VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness í kjarasamningnum 2019 launahækkun hafi numið 125.000 kr. launahækkun í þriggja ára samningi. Niðurstaðan hafi hækkanir sem námu 90.000 kr. í fjögurra ára samningi. „Það þýðir að í lífskjarasamningnum náðum við 54% af okkar launakröfu vegna þess að samningurinn var lengri og upphæðin lægri.“
Þetta sé eðli kjaraviðræðna. Báðir aðilar nái aldrei öllum sínum kröfum. „Það ber að skoða kröfugerð Eflingar í ljósi þessara staðreynda, ekki nema fólk telji að allt sem lagt er fram náist í gegn. Slíkt hefur aldrei gerst því þá eru þetta ekki samningaviðræður.“
Vilhjálmur segir það eilífðarverkefni að lagfæra kjör verkafólks „og í þessum framlengda lífskjarasamningi var stigið enn eitt skrefið í átt til þess. Og það á svo sannarlega eftir að stíga enn fleiri skref í þeirri lífskjarabaráttu“.
Samhliða kjaraviðræðunum var Starfsgreinasambandið í viðræðum við stjórnvöld um atriði til að styðja við samninginn. „Í gær hringdi forsætisráðherra í mig og taldi það skynsamlegt að bíða með yfirlýsingu frá stjórnvöldum þar til allri vinnu væri lokið og fleiri landssambönd hafi klárað sína kjarasamninga.
Forsætisráðherra fullvissaði mig um að stjórnvöld muni koma með atriði til að styðja við samninginn en ég tel mikilvægt að því sé komið á framfæri og þeirri vinnu er ekki lokið og henni verður haldið áfram af öllum landssamböndum innan ASÍ.“