Íslendingar fluttu út vörur fyrir 590,5 milljarða króna á síðasta ári en inn vörur fyrir 586,3 milljarða króna. Vöruskipti voru því hagstæð um 4,2 milljarða króna árið 2014. Það er umtalsverður samdráttur frá árinu 2013 þegar afgangurinn var 40,2 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands.
Vöruútflutningur dróst saman um 3,3 prósent frá fyrra ári, á gengi hvors árs, en vöruinnflutningur jókst um 2,8 prósent.
Hluti iðnaðarvöru var 52,5 prósent alls vöruútflutnings og hlutur sjávarafurða 41,3 prósent. Stærstu viðskiptalönd Íslands voru Holland í vöruútflutningi en Noregur í vöruinnflutningi. EES var áfram sem áður þýðingarmesta markaðssvæði landsins, jafnt í útflutningi sem innflutningi. Á fyrstu þremur árum ársins 2015 fór 80,7 prósent útflutnings inn á EES-svæðið og 52,2 prósent innfluttra vara kom þaðan.
Athygli vekur að innflutningur á vörum frá EES-svæðinu var 64,6 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins 2014 og hefur því hlutfallslega dregist töluvert saman milli ára. Mesta aukningin í innflutningi hefur orðið hjá liðnum „önnur lönd“, en undir þann lið falla ríki utan Evrópu utan Bandaríkjanna og Japan, sem eru sérstaklega tilgreind. Hlutfall af heildarinnflutningi Íslendinga frá „öðrum löndum“ jókst úr 20,8 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2014 í 35,9 prósent á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.