Vöruskiptajöfnuður, munurinn á virði þeirra vara sem Íslendingar fluttu inn og út úr landinu, var jákvæður um 5,2 milljarða króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Alls fluttum við út vörur fyrir 221,9 milljarða króna á tímabilinu en inn vörur fyrir rúma 216,6 milljarða króna. Langmest munaði um jákvæðan vöruskiptajöfnuð í apríl, en þá voru vöruskipti hagstæð um 4,7 milljarða króna. Fyrstu þrjá mánuði ársins fluttum við því út vörur fyrir einungis 500 milljónir króna meira en við fluttum inn. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands sem voru birtar í dag.
Vöruskiptajöfnuður dróst mikið saman milli áranna 2013 og 2014. Á fyrra árinu var hann jákvæður um 40,2 milljarða króna en í fyrra voru vöruskipti hagstæð um 4,2 milljarða króna. Afgangurinn af vöruskiptum var því einungis einn tíundi af því sem hann var á árinu 2013. Á árinu 2014 fluttu Íslendingar fluttu út vörur fyrir 590,5 milljarða króna á síðasta ári en inn vörur fyrir 586,3 milljarða króna. Vöruútflutningur dróst saman um 3,3 prósent frá fyrra ári, á gengi hvors árs, en vöruinnflutningur jókst um 2,8 prósent.
Fyrstu fjóra mánuði ársins 2015 voru fluttar út vörur fyrir tæpa 221,9 milljarða króna en inn fyrir rúma 216,6 milljarða króna. Afgangur var því af vöruskiptum við útlönd sem nam 5,2 milljörðum króna. Á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 2,8 milljarða króna á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn á fyrstu fjórum mánuðum ársins var því átta milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.
Iðnaðarvörur, aðallega ál, voru stærsti hluti útfluttra vara, eða 55,9 prósent alls útflutnings. Verðmæti þeirra vara var 40,7 prósent hærra en árið áður og því ljóst að hækkandi álverð er megin ástæða þess að vöruskiptajöfnuður er betri nú en í fyrra. Sjávarafurðir voru 40 prósent alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 18 prósent hærra en á sama tíma í fyrra. Helsta ástæða hækkunarinnar er, samkvæmt Hagstofunni, útflutningur á fiskimjöli.
Á sama tíma og hærra heimsmarkaðsverð fyrir ál og sjávarafurðir skilar okkur meiri tekjum í kassann erum við að flytja inn vörur fyrir mun hærri upphæðir en áður. Alls borguðu Íslendingar 39,3 milljörðum krónum meira fyrir vörur sem voru fluttar inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2015 en á sama tímabili í fyrra. Helstu ástæður þessa eru vegna hrá- og rekstrarvöru og flugvéla. Á móti dróst innflutningur á eldsneyti saman samhliða því að olíuuverð nú er mun lægra en það var á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2014.
Vert er að taka fram að sú atvinnustoð sem skilað þjóðarbúinu mestum tekjum, ferðaþjónusta, mælist ekki með í vöruskiptum heldur þjónustuskiptum.