Fyrstu tvo mánuði ársins voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 101,8 milljarða króna, en inn fyrir 108,3 milljarða, sem þýðir að vöruskipti við útlönd voru óhagstæð um 6,6 milljarða króna. Á sama tíma í fyrra voru vöruskiptin hins vegar hagstæð um 9,9 milljarða á gengi hvors árs. Viðskiptajöfnuðurinn er því 16,4 milljörðum króna lakari en á sama tíma í fyrra.
Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Hagstofunnar.
Þar segir að í febrúar hafi verið fluttar út vörur fyrir 51,2 milljarða króna og inn fyrir 64,9 milljarða. Vöruskiptin í síðasta mánuði voru því óhagstæð um 13,7 milljarða króna. Í febrúarmánuði á síðasta ári voru vöruskiptin hins vegar hagstæð um 2,7 milljarða króna.
Fyrstu tvo mánuði ársins var verðmæti vöruútflutnings 10,6 milljörðum, eða 11,6 prósentum hærra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru tæp 58 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra rúmu 21 prósenti hærra en á sama tímabili í fyrra, aðallega vegna áls. Þá voru sjávarafurðir liðlega 37 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 8,2 prósentum hærra en á sama tíma í fyrra.
Í janúar og febrúar nam verðmæti vöruinnflutnings 27 milljörðum eða rúmlega 33 prósentum hærra á gengi hvors árs, en á sama tímabili árið 2014. Aukinn innflutningur var á flutningatækjum, aðallega flugvélum, að því er fram kemur í áðurnefndri frétt á vefsíðu Hagstofunnar.