Alþjóðageirinn, sem inniheldur fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum, hefur einungis vaxið um tæplega 3 prósent hérlendis á hverju ári, þrátt fyrir að ráðist hafi verið í ýmsar aðgerðir til að bæta hann á síðustu árum. Þetta kemur fram í erindi Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem haldið var fyrr í dag.
Samkvæmt Viðskiptaráði standa helstu atvinnugreinar auðlindageirans, sem inniheldur meðal annars ferðaþjónustu, sjávarútveg og álframleiðslu, frammi fyrir vaxtarskorðum í framtíðinni. Því telur ráðið nauðsynlegt að efla vöxt alþjóðageirans, þar sem engin takmörk séu á verðmætum sem skapa megi þar.
Hingað til hafi vöxtur alþjóðageirans þó verið undir markmiðum, sé miðað við markmið ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um 10 prósenta árlegan vöxt. Tryggja þarf gott rekstrarumhverfi fyrirtækja í geiranum, auk þess sem fjölga þarf sérhæfðu starfsfólki og auka ætti skilvirkni fjármögnunarumhverfisins til að ná þessum markmiðum, að mati Viðskiptaráðs. Upptöku af fundinum má sjá hér að neðan.
Viðskiptaráð segir að bæta megi rekstrarumhverfi fyrirtækjanna meðal annars með auknum fyrirsjáanleika í hagstjórn og stöðugu gengi íslensku krónunnar. Einnig er því haldið fram að nýlegar launahækkanir hafi verið of miklar og að tryggja þurfi að þær séu í takt við framleiðnivöxt.
Í erindinu kemur einnig fram að fyrirtæki þurfi að hafa greitt aðgengi að sérhæfðu starfsfólki hverju sinni. Hins vegar er erfitt fyrir Ísland að geta sinnt slíkri eftirspurn sökum fámennis og því þurfi að auðvelda fyrirtækjum til að laða til sín erlenda sérfræðinga. Hér stingur Viðskiptaráð upp á að styrkja alþjóðlegt nám og skattaívilnanir fyrir sérhæfða innflytjendur.
Til viðbótar við stöðugt rekstrarumhverfi og fjölgun sérfræðinga segir Viðskiptaráð að greiða ætti fyrir fjármögnun sprotafyrirtækja hér á landi. Það mætti til dæmis gera með því að liðka fyrir afleiðuviðskiptum með gjaldeyri og skortsölu lífeyrissjóða, en samkvæmt ráðinu myndu þessar tvær aðgerðir koma landinu upp um flokk í alþjóðlegu MSCI vísitölunni og laða að sér fjölda erlendra fjárfesta.