Formaður Framsóknarflokksins fór mikinn í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarmanna í gær. Þar hélt hann því fram að kröfuhafar í slitabú föllnu bankanna, það er erlendir vogunarsjóðir, stundi njósnir hér á landi og hafi varið 18 milljörðum króna í hagsmunagæslu á Íslandi.
Í ræðu sinni fullyrti Sigmundur Davíð að það sé þekkt að flestar, ef ekki allar, stærri lögmannsstofur landsins og almannatengslafyrirtæki hafi unnið fyrir vogunarsjóðina.
Þá sagði forsætisráðherra: „Og í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það.“ Þá vitnaði Sigmundur Davíð til skýrslna þar sem fram kæmi að helsta ógnin sem steðjaði að vogunarsjóðunum væri sjálfur Framsóknarflokkurinn.
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn að forsætisráðherra ber á torg fullyrðingar, sem þarfnast frekari útskýringa. Sigmundur Davíð hefur í tíð sinni sem forsætisráðherra meðal annars sakað Seðlabankann um að stunda pólitík og fullyrt í eftirminnilegum Kryddsíldarþætti að lekar úr stjórnsýslunni á upplýsingum um persónulega hagi fólks séu nær daglegt brauð.
Pæling Kjarnans: Er ekki enn og aftur eðilegt að forsætisráðherra færi rök fyrir fullyrðingum sínum og jafnvel leggi fram skýrslurnar sem hann vitnar til? Var hann í alvörunni að gera þetta aftur?