Dagblaðið Washington Post birti á vefsíðu sinni í gær umfjöllun og lista yfir þá þjóðarleiðtoga sem lengst hafa setið á valdastóli í heiminum. Umfjöllunin birtist undir fyrirsögninni: "The world leaders who just won't step down," eða Leiðtogar heimsins sem neita að stíga til hliðar.
Umfjöllun Washington Post hefst á upprifjun á nýlegum mótmælum í Burkina Faso. Þar kröfðust mótmælendur þess að forseti landsins, Blaise Compaoré, myndi láta af áformum sínum að bjóða sig aftur fram til embættis forseta, en hann hafði þá setið á valdastóli í 27 ár. Mótmælin skiluðu sínu, því Compaoré steig til hliðar.
Listi Washington Post.
Á toppi listans trónir forseti Kamerún, Paul Biya, með 14.361 dag á valdastóli, en á listanum sitja helst þjóðarleiðtogar frá ríkjum Afríku og Asíu. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, situr í átjánda sæti listans með 6.664 daga í embætti. Ólafur Ragnar er einn þriggja þjóðarleiðtoga frá Evrópu sem komast á listann, hinir tveir eru Vladimir Pútín, forseti Rússlands, og Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands.
Í umfjöllun Washington Post segir: "Það kann að koma vestrænum lesendum spánskt fyrir sjónir, sem margir hverjir búa í ríkjum þar sem í gildi eru takmarkanir á fjölda kjörtímabila eða þar sem flokkapólitík gerir einum stjórnmálamanni erfitt um vik að halda um valdataumana lengi, en staðreyndin er engu að síður sú víða um heim hafa þjóðarleiðtogar setið í embætti í áratugi."
"Meginregla valdaskipta er að stríða gegn þeirri hugmynd að einhver einn þjóðarleiðtogi sé ómissandi."
Þá er vitnað til greinar sem Thomas E. Cronin, prófessor í bandarískri stjórnsýslu og leiðtogafræðum við háskólann í Colorado, skrifaði í Washington Post í janúar, þar sem hann færði rök fyrir áframhaldandi takmörkunum á fjölda kjörtímabila í Bandaríkjunum. Þar skrifaði Cronin: "Meginregla valdaskipta er að stríða gegn þeirri hugmynd að einhver einn þjóðarleiðtogi sé ómissandi."
Í umfjöllun Washington Post er fjallað sérstaklega um Ólaf Ragnar. "Jafnvel í óvenjulegu tilfelli Íslands, sem er eitt félagslegra lýðræðisríkja á listanum, hefur Ólafur Ragnar Grímsson (sem gegnir embætti sem er að megninu til formlegt en hefur að engu síður mikilvægt neitunarvald) verið gagnrýndur fyrir að gegna embættinu of lengi."