Enski landsliðsmaðurinn og framherji Manchester United, Wayne Rooney, var sleginn í rot í eldhúsinu heima hjá sér á dögunum, þegar hann og Phil Bardsley, bakvörður enska úrvalsdeildarliðsins Sunderland, öttu kappi í hnefaleikum.
Enska slúðurblaðið The Sun greinir frá málinu. Atvikið, sem var fest á myndband, átti sér víst stað eftir leik Manchester United gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni í febrúar.
Þar sést hvar sem fyrrum liðsfélagarnir skiptast á höggum íklæddir hnefaleikahönskum, að því er virðist í gamni til að byrja með, sem svo endar með því að Bardsley veitir enska landsliðsmanninum þungt vinstri handar högg, með þeim afleiðingum að Rooney fellur til jarðar eins og trédrumbur.
Frétt Sun hefur vakið mikla athygli, og ekki síst á meðal íþróttafréttamanna sem segja mikið mildi að ekki fór verr, því á myndbandinu sést hvernig Rooney fellur til jarðar á marmaragólf og sleppur naumlega við að detta með höfuðið á eldhúsinnréttingu.
Þá hafa margir hneykslast á athæfi mannanna í breskum fjölmiðlum, og telja að atvikið hefði getað kostað eina skærustu knattspyrnustjörnu Englendinga lífið. Þá má geta þess að Rooney er með rúmar 62 milljónir íslenskra króna í laun á viku hjá Manchester United. Þá velta margir fyrir sér hver viðbrögð Louis van Gaal, þjálfara Manchester United, og Roy Hodgson, þjálfara landsliðs Englands, verða.
Sjón er sögu ríkari, en hægt er að horfa á myndbandið hér að neðan. Athugið að í myndbandinu kemur fyrir ofbeldi, sem ekki er við hæfi viðkvæmra.