Uppljóstrunarsíðan Wikileaks hefur birt meira en milljón tölvupósta frá ítalska fyrirtækinu Hacking Team. Fyrirtækið sérhæfir sig í njósnaforrit fyrir tölvur og snjallsíma og er mjög umdeilt fyrir að framleiða forrit sem gerir aðilum kleyft að rjúfa friðhelgi einkalífs og brjóta á mannréttindum fólks á netinu.
Í töluvpóstunum má finna samskipti milli rannsóknarlögreglumannsins Ragnars Ragnarssonar hjá tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglu höfuðborgarsvæðisins og starfsmanns Hacking Team, þar sem íslenska lögreglan spyrst fyrir um njósnaforrit fyrir snjallsíma. Reykjavík Grapevine greindi fyrstur íslenskra fjölmiðla frá málinu.
Tölvupóstssamskiptin eru frá árinu 2011, en samkvæmt gögnunum frá Wikileaks hófust þau þegar starfsmaður Hacking Team sendi íslenska rannsóknarlögreglumanninum tölvupóst í lok maí það ár, þar sem hann greinir frá því að fyrirtækið muni taka þátt í sölusýningu.
Í tölvupóstinum greinir starfsmaðurinn frá því að fyrirtækið muni kynna nýtt njósnaforrit fyrir PC-tölvur og snjallsíma á sýningunni, sem geti fylgst leynt með samskiptum meðal annars í gegnum Skype og MSN, tekið afrit af skrám, ljósmyndum og virkjað hljóðnema til að hlera úr vasa. Forritið er kallað RCS, eða Remote Control System.
Nokkrum dögum síðar sendi íslenski rannsóknarlögreglumaður tölvupóst á starfsmann Hacking Team og óskar frekari upplýsinga um lausnir fyrirtækisins til að fylgjast með notkun snjallsíma. Starfsmaðurinn sendir þá lögreglumanninum tölvupóst þar sem hann tilgreinir að RSC virki til að „njósna“ um flestar gerðir snjallsíma.
Svarið hefur greinilega ekki verið fullnægjandi því að lögreglumaðurinn sendir starfsmanni Hacking Team aftur tölvupóst og spyr: „Ég er að leita eftir ítarlegri upplýsingum, sérstaklega er varða lausnir fyrir snjallsíma, verð o.s.frv. Getur farsímakerfið náð voip (Voice Over Internet Protocol) samskiptum?“
VoIP eru meðal annars símasamskipti manna á milli á netinu, eins og til dæmis í gegnum forrit eins og Skype.
Í svari starfsmanns Hacking Team við fyrirspurn íslenska rannsóknarlögreglumannsins kemur fram að ekki sé hægt að hlera VoIP samskipti, en fyrirtækið geti mögulega unnið slíka lausn sé þess óskað. Þá óskar starfsmaðurinn eftir því að lögreglumaðurinn sendi sér öryggiskóða óski hann eftir frekari upplýsingum. „Eins og þú getur ímyndað þér þá yrðu gögnin sem ég myndi senda þér mjög viðkvæm,“ eins og segir í tölvupóstinum.