Leikstjórinn Woody Allen, sem verður áttræður í desember næstkomandi, mun leikstýra fyrstu sjónvarpsþáttarröðinni á ferli sínum síðar á þessu ári fyrir Amazon TV. Amazon greindi frá þessu í tilkynningu til Nasdaq-kauphallarinnar í New York fyrr í dag. Allen mun bæði skrifa og leikstýra þáttunum, sem hafa enn ekki hlotið nafn. Hver þáttur verður hálftímalangur og viðskiptavinir Amazon TV í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi munu geta horft á þá.
Í fréttatilkynningu Amazon er eftirfarandi haft eftir Allen: „Ég veit ekki hvernig ég kom mér í þetta. Ég er ekki með neinar hugmyndir og veit ekkert hvar ég á að byrja. Ég giska á að Roy Price [varaforseti Amazon Studios] eigi eftir að sjá eftir þessu.“
Efnisveitur vinna til verðlauna
Amazon TV selur streymiáskrift til viðskiptavina sinna. Viðskiptamódelið er ekki ósvipað Netflix, sem Íslendingar þekkja vel. Efnisveiturnar hafa báðar framleitt eigið efni sem sýnt er hjá þeim og gengið fantavel. Á Golden Globe hátíðinni sem fram fór um liðna helgi var þáttaröðin Transparent, sem framleidd er af Amazon, meðal annars til tvennra verðlauna og Kevin Spacey fékk ein fyrir hlutverk sitt í House of Cards, sem Netflix sýndi og framleiddi. House of Cards þáttaröðin hlaut ennfremur sjö Emmy verðlaun í fyrra.
Amazon er talið hafa eytt um tveimur milljörðum dala í efni á síðasta ári á meðan að Netflix eyddi um þremur milljörðum dala. Innifalið í þessum tölum er bæði framleiðsla á eigin efni og kaup á rétti til að sýna efni sem framleitt er af öðrum.