Flugfélagið WOW air flutti 104 þúsund farþega til og frá Íslandi í júlí síðastliðnum. Það er 43 prósent fleiri farþegar en flugu með félaginu í júlí 2014. Farþegafjöldinn er nýtt met hjá WOW air, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Fram kemur að sætanýtingin í júlí var 90 prósent. Framboð, mælt í sætiskílómetrum, jókst um 65 prósent milli júlí 2015 og júlí 2014.
„Það er magnað að í júlí fluttum við fleiri farþega heldur en allt fyrsta árið okkar 2012. Félagið hefur vaxið gríðarlega og erum við afar þakklát fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið frá fyrsta degi“ segir Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, í tilkynningunni. Flugfélagið flýgur í dag til 20 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Félagið er með sex flugvélar í flota sínum í sumar.
Í gær tilkynnti Icelandair Group að farþegar í millilandaflugi félagsins hafi verið 415 þúsund talsins í júlí síðastliðnum. Sá fjöldi var sá mesti í einum mánuði frá stofnun félagsins, rétt eins og hjá WOW Air. Sætanýting hjá Icelandair í júlí var 88,9 prósent.
Fjölgun farþega í flugvélum íslensku flugfélaganna tveggja er í takt við þá miklu fjölgun ferðamanna á þessu ári, sem er yfir tuttugu prósent. Hagstofan greindi frá því í dag að gistinóttum á hótelum í júní fjölgaði um 19 prósent samanborið við júní 2014. Ekki liggja fyrir tölur um júlímánuð, en búast má við að hún sé svipuð eða meiri.
Nýting herbergja á hótelum í júní 2015 var með mesta móti, eða 84,1 prósent. Hún var mest á Suðurnesjum, eða 90 prósent.