Nítján einstaklingar, þar af sautján erlendir ferðamenn, eru látnir eftir skotárás á safni í Túnis í dag. Að minnsta kosti 24 til viðbótar særðust í árásinni, sem er rannsökuð sem hryðjuverk. Tveir skotárásarmenn eru jafnframt látnir.
Árásin var gerð á Bardo þjóðminjasafnið í Túnis, höfuðborg Túnis. Tveir menn skutu á fólk í safninu, en að sögn forsætisráðherra Túnis, Habib Essid, voru báðir mennirnir skotnir til bana af lögreglumönnum. Forsætisráðherrann segir að tveir til þrír menn til viðbótar gætu hafa tekið þátt í hryðjuverkunum, og er þeirra manna leitað núna. Enn er einnig verið að rannsaka svæðið.
Hryðjuverkamennirnir tveir héldu fjölda fólks í gíslingu í safninu um tíma, en lögreglu tókst að frelsa fjölda gísla.
Einn lögreglumaður lést í árásinni, sem og einn Túnisbúi. Sautján erlendir ferðamenn létust, þar á meðal ítalskir, spænskir, pólskir og þýskir ríkisborgarar, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.
BREAKING: Tunisian PM: 19 dead, including 17 foreign tourists, in Tunis terror attack: http://t.co/hWWOtywLHN pic.twitter.com/SdBaZ57lYj
— ABC News (@ABC) March 18, 2015
Í kjölfar hryðjuverkanna var þinghúsið rýmt, en þar stóðu yfir umræður um löggjöf gegn hryðjuverkum.