Rúmlega 71 prósent landsmanna eru hlynnt því að sett verði leiguþak á leiguhúsnæði á Íslandi, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar frá Maskínu, sem unnin var fyrir Samtök leigjenda. Enn fleiri, eða rúm 72 prósent, styðja að sett verði svokölluð leigubremsa á verð leighúsnæðis hérlendis.
Í skoðanakönnuninni, sem framkvæmd var með netkönnun dagana 2. til 12. september og náði til 1.249 svarenda, voru þátttakendur spurðir hvort þeir styddu leigubremsu og leiguþak, en í upphafi spurninganna voru hugtökin tvö skilgreind með eftirfarandi hætti:
„Leigubremsa er það kallað þegar gefið er út viðmið [um] hversu mikið húsaleiga má hækka yfir tiltekið tímabil“ og „Leiguþak er það kallað þegar gefið er út hámarksleiguverð á leiguhúsnæði miðað við stærð, gæði og staðsetningu.“
Þáttakendur voru svo spurðir hvort þeir væru hlynntir eða andvígir því að þessi úrræði yrðu tekin upp hér á landi. Svörin voru sem áður segir þau að rúmlega 70 prósent svarenda sögðust hlynnt bæði leigubremsu og leiguþaki hérlendis.
Í báðum tilfellum sögðust um 46-47 prósent svarenda vera „mjög hlynnt“ því að þessi úrræði til að sporna gegn hækkunum leiguverðs yrðu tekin upp hér á landi. Lítill hluti sagðist á móti „mjög andvígur“ slíkum hugmyndum, eða á bilinu 5-6 prósent í hvoru tilfelli.
Stuðningur við þessar hugmyndir var meiri í hópi þeirra sem búa í leigughúsnæði en þeirra sem búa í eigin húsnæði, sem ef til vill þarf ekki að koma á óvart. Á meðal leigjenda sögðust 88 prósent hlynnt leigubremsu og 84 prósent hlynnt leiguþaki, en hlutfallið var um og yfir 70 prósentum í hópi þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Andstaða mælir nær einungis á hægri kantinum
Þegar horft er til þess hvernig afstaða fólk er eftir stuðningi við einstaka stjórnmálaflokka sést að meirihluti væntra kjósenda allra stjórnmálaflokka sögðust hlynnt bæði leiguþaki og leigubremsu.
Andstaðan við þessar hugmyndir var mest á hægri væng stjórnmálanna, en rúm 30 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks segjast andvíg hugmyndinni um leiguþak og rúm 28 prósent kjósenda Viðreisnar. Hjá væntum kjósendum Framsóknarflokks sögðust einnig tæp 13 prósent andvíg hugmyndinni um leiguþak, en í öðrum kjósendahópum er andstaðan við þá hugmynd undir 10 prósentum.
Kjósendum þessara flokka líst ögn betur á leigubremsu, en 26 prósent væntra kjósenda Sjálfstæðisflokks segjast andvíg því að slík hugmynd verði útfærð á Íslandi og rúm 19 prósent væntra kjósenda Viðreisnar. Á meðal kjósenda annarra flokka segjast innan við tíu prósent andvíg því að koma á leigubremsu á íslenskum leigumarkaði.