Alls er áætlað að þeir sextán virkjanakostir sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar geti gefið af sér alls 1.023 megawött af orku. Mikið hefur verið rætt um að ekki séu til möguleikar um að útvega næga orku í fyrirhugaða stóriðju á suðvesturhorni landsins, sérstaklega fyrir uppbyggingu kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík og sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga. Á því svæði eru hins vegar átta virkjanakostir í jarðvarma sem eiga að gefa af sér 460 megawött af orku. Kísilmálmverksmiðjunnar þurfa einungis brot af þeirri orku. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Til að setja þessar tölu í samhengi má rifja upp að Kárahnjúkavirkjun, stærsta virkjun landsins, gefur af sér 690 megawött af orku.
Þar eru nýleg orð Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar Alþingis, um að töf á færslu þriggja virkjanakosta úr bið- í nýtingarflokk rammaáætlunar muni gera það að verkum að Landsvirkjun muni ekki geta útvegað næga orku fyrir uppbyggingu kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík og sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga. Hvammsvirkjun, sem fór í nýtingarflokk, fullnægi aðeins orkuþörf annars verkefnisins. Jón segir vafasamt að hægt sé að nýta þá kosti sem þegar eru í nýtingarflokki í umrædd verkefni. Engir virkjanakostir séu raunhæfir á þessum áratug nema þeir sem séu í neðrihluta Þjórsár og Þeistareykir.
Landsvirkjun strax komin af stað með Hvammsvirkjun
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti sveitarstjórnar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem segir að daginn eftir að samþykkt var að færa Hvammsvirkjun í nýtingarflokk hafi starfsmenn Landsvirkjunar haft samband við sveitafélagið og viljað viðræður. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, segir fulltrúa Landsvirkjunar einnig hafa haft samband, en framkvæmdin mun fara fram innan beggja sveitarfélaganna.