Alls 23 þingmenn úr sjö af þeim átta flokkum sem eiga sæti á Alþingi standa saman að þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á þingi um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni, sem er virka efnið í ofskynjunarsveppum, í geðlækningaskyni. Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks er fyrsti flutningsmaður tillögunnar og að minnsta kosti einn þingmaður allra flokka nema Vinstri grænna setur nafn sitt við hana.
Tillagan felur í sér að Alþingi feli heilbrigðisráðherra, í samstarfi við aðra ráðherra sem málið snertir, að „undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi“.
Þingmennirnir vilja að tillögur ráðherra um þetta liggi fyrir eigi síðar en næsta vor.
Sílósíbin er sem áður segir virka efnið í ofskynjunarsveppum, en á undanförnum árum og áratugum hafa margvíslegar rannsóknir farið fram á gildi þessa virka efnis til meðhöndlunar á ýmsum kvillum sem hrjá mannkynið, til dæmis geðrænum vandamálum á borð við kvíða og þunglyndi og svo fíknisjúkdómum.
Ísland verði leiðandi í rannsóknum á hugvíkkandi efnum
Markmið þingmannanna með tillögunni er, samkvæmt því sem segir í greinargerð, „að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni“ og „að rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efni í geðlækningaskyni verði alfarið í höndum fagfólks í heilbrigðisþjónustu“.
Í dag eru falla hugvíkkandi efni á borð við sílósíbin undir skilgreiningar laga um ávana- og fíkniefni og varsla þeirra því óheimil. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að möguleikar þess í geðlækningaskyni séu miklir, en að fordómar gagnvart notkun efnisins séu töluverðir og brýnt sé að vinna bug á þeim svo unnt sé að stunda frekari og útbreiddari rannsóknir á efninu.
Í greinargerðinni eru niðurstöður ýmissa vísindarannsókna á virkni sílósíbins settar fram, auk þess sem vísað er til umfjallana sem birst hafa í íslenskum fjölmiðlum á undanförnum árum.
Þannig er vísað til þess að í febrúar á þessu ári var fjallað um möguleika sem fælust í notkun efnisins í geðlækningaskyni í Kveik á RÚV. Þar var rætt við Víði Sigrúnarson geðlækni á Vogi, sem benti á að efnið væri ekki ávanabindandi og því takmörkuð hætta á að einstaklingar ánetjuðust efninu. Víðir varaði hins vegar við því efnið væri notað samfara öðrum efnum, og án samráðs við fagfólk.
Einnig vísa þingmennirnir í greinargerð sinni til þess að Pétur Henry Petersen, prófessor við læknadeild HÍ og sérfræðingur í taugavísindum, hafi varað við því í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon á X977 að einstaklingar neyttu sílósíbíns á eigin vegum líkt og algengt væri.
„Flutningsmenn tillögunnar telja brýnt að rannsóknir á notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni verði alfarið framkvæmdar á vegum fagfólks og að kannað verði til þrautar hvort efnið geti valdið þeim straumhvörfum í geðlækningum sem ýmsir fræðimenn hafa boðað. Ávinningurinn gæti orðið verulegur, ekki síst á Íslandi þar sem um 60.000 einstaklingar glíma við geðræn vandamál. Geðlyfjanotkun á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast á síðustu 15 árum. Árið 2005 var 627 skömmtum af geðlyfjum ávísað á hverja 100.000 íbúa, en árið 2020 voru skammtarnir orðnir 1.317. Talið er að hefðbundin þunglyndislyf gagnist ekki í um þriðjungi tilfella,“ segir í greinargerð þingmannanna.