Nú þegar meira en helmingur atkvæða hefur verið talinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grikklandi, hafa ríflega 61 prósent grískra kjósenda kosið að hafna samkomulagi við kröfuhafa gríska ríkisins um frekari aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstrinum í skiptum fyrir frekari fjárhagsaðstoð. Um 39 prósent vildu hins vegar fallast á samkomulagið.
Kjörstaðir í Grikklandi lokuðu klukkan 16 í dag, en Grikkjum var einungis heimilt að kjósa í því kjördæmi sem þeir höfðu lögheimili í, og voru því margir Grikkir á faraldsfæti í dag og undanfarna daga. Fyrstu útgönguspár bentu til þess að svona myndi fara, að Grikkir myndu segja nei við samkomulaginu, en naumlega þó.
Annað hefur þó komið á daginn, enda hafa helstu stjórnmálaleiðtogar landsins, þeirra á meðal forseti landsins Alexis Tsipras, hvatt landsmenn sína undanfarna daga til að hafna samkomulaginu. Það virðist hafa borið árangur því yfirgnæfandi meirihluti Grikkja hefur ákveðið að kjósa nei við samkomulaginu, en gríðarlegur mannfjöldi hefur safnast saman í miðborg Aþenu til að fagna úrslitunum.
Samkvæmt BBC eru engin fundahöld á milli leiðtoga helstu ríkja Evrópu fyrirhuguð í kvöld eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, en Angela Merkel kanslari Þýskalands og Francoise Holland, forseti Frakklands, ætla á hittast til að ræða stöðuna sem uppi er.
Búist er við þvi að Syriza-flokkurinn, sem leiðir ríkisstjórn Grikklands, muni nota afgerandi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að styrkja samningsstöðu sína gagnvart helstu kröfuhöfum landsins, þríeykinu sem samanstendur af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópska Seðlabankanum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.