Eiríkur S. Svavarsson, lögmaður og einn eiganda Matorku, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Kjarnans í gærkvöldi þar sem fjallað var um að hann hafi komið fyrir atvinnuveganefnd þann 30. október síðastliðinn fyrir hönd Lögmannafélags Íslands til að ræða frumvarp um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Eiríkur segir í yfirlýsingu að hann hafi ekki átt hagsmuna að gæta á fundinum né gagnvart efnisatriðum frumvarpsins. Með fréttaflutningi af málinu sé "að ástæðulausu vegið að heilindum mínum og starfsheiðri."
Í fréttinni var haft eftir Jóni Gunnarssyni, formanni atvinnuveganefndar að Eiríkur hafi ekki tekið fram að fyrirtæki sem að hluta til væri í hans eigu væri í viðræðum við atvinnuvegaráðuneytið um ívilnunarsamning á sama tíma og hann kom fyrir nefndina. „Mér finnst þetta vera mjög sérstakt. Menn eiga að hafa vit á því að halda sér til hliðar þegar svona hagsmunir eru í húfi, “ sagði Jón í fréttinni.
Kjarninn stendur að fullu leyti við frétt sína af málinu. Ekki er bent á neinar rangfærslur í fréttinni í yfirlýsingu Eiríks.
Yfirlýsing frá Eiríki S. Svavarssyni
"Í fréttum undanfarin sólarhring er leitast við að kasta rýrð á störf mín í laganefnd LMFÍ í ljósi þess að ég er einn fjölmargra hluthafa Matorku ehf. en hlutinn á ég ásamt eiginkonu minni. Fréttir þessar lúta að því að ég hafi fyrir hönd laganefndar LMFÍ mætt fyrir Atvinnuveganefnd til að gera grein fyrir umsögn nefndarinnar án þess að ég hafi gert grein fyrir meintum „hagsmunatengslum“ eins og það er orðað.
Umrædd heildarlög sem Atvinnuveganefnd óskaði umsagnar laganefndar LMFÍ snerta ekki umsókn Matorku ehf. um nýfjárfestingasamning enda byggir umsókn Matorku, dags. 4. desember 2013, á lögum 99/2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.
Umsókn Matorku ehf. var á grundvelli þeirra laga en ekki frumvarpsins sem óskað var umsagnar um. Það frumvarp tekur ekki til þeirra umsókna um ívilnanir sem byggja á öðrum lögum, þ.e. lög nr. 99/2010. Ég átti því ekki hagsmuna að gæta á þessum fundi eða gagnvart efnisatriðum þessa frumvarps.
Laganefnd LMFÍ fær fjölda frumvarpa til umsagnar ár hvert. Að gerð umsagnar LMFÍ í þessu tilviki komu nokkrir nefndarmenn. Í þessari umsögn voru aðeins tekin til umfjöllunar lögfræðileg atriði sem sneru almennt að málefnum nýfjárfestinga eins og þau birtust í viðkomandi frumvarpi.
Með mjög skömmum fyrirvara óskaði Atvinnuveganefnd eftir að fulltrúi úr laganefnd kæmi fyrir nefndina þann 30. október s.l. Þar sem tveir aðrir fulltrúar laganefndar gátu ekki mætt með svo skömmum fyrirvara var þess óskað að ég mætti. Á fundinum fór ég yfir þá umsögn sem laganefnd LMFÍ hafði unnið f.h. nefndarinnar. Í engu var þar vikið að Matorku eða umsóknum um ívilnanir almennt.
Ég lít ofangreindar ásakanir mjög alvarlegum augum því að með þeim og fréttaflutningi sem þessum er að ástæðulausu alvarlega vegið að heilindum mínum og starfsheiðri."