Þorvaldur Ingvarsson, forstöðumaður þróunarsviðs og rannsókna hjá Össuri hf. stoðtækjaframleiðanda, virkjaði í dag kauprétt að hlutabréfum í félaginu að andvirði um 160 milljónir króna að markaðsvirði. Hagnaður hans af sölu hlutabréfanna nemur um 106 milljónum króna. Samkomulagið um kaupréttinn er frá því í maí 2012, þegar verð hlutabréfanna stóð mun lægra en það gerir í dag.
Þorvaldur fékk 350 þúsund hluti á genginu 8,59 danskar krónur á hlut, en Össur er skráð á markað bæði á Íslandi og í Danmörku. Gengi bréfanna á markaði í dag er 2,8 sinnum hærra, eða um 23,9 danskar krónur á hlut. Hann seldi stærstan hluta bréfanna í Kauphöllinni hérlendis, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar í dag, á genginu 480 krónur á hlut. Markaðsvirði þess hlutar sem hann seldi nemur um 165 milljónum króna. Hagnaður hans af kaupréttinum nemur því um 106 milljónum króna.
Kaupréttarsamkomulag við Þorvald var gert í maí 2012, á svipuðum tíma og gert var sambærilegt samkomulag við Jón Sigurðsson, forstjóra félagsins. Jón virkjaði sinn kauprétt fyrr í þessum mánuði, og nam hagnaður hans af viðskiptunum um 370 milljónum króna.
Fram kemur í tilkynningu til Kauphallar að Þorvaldur á eftir viðskiptin 8.646 hluti í Össuri, eftir að hafa selt 343.911 hluti í dag. Þá á hann kauprétt að um 225 þúsund hlutum. Markaðsvirði kaupréttarins sem enn er óinnleystur er um 250 milljónir króna, miðað við gengi viðskiptanna í dag.