Fyrirtækið Zymetech hlaut í morgun Nýsköpunarverðlaun Íslands, sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í dag. Zymetech er leiðandi íslenskt líftæknifyrirtæki á sviði rannsókna, þróunar, framleiðslu og sölu náttúrulegra sjávarensíma fyrir húðvörur, lækningatæki og lyf. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og rannsóknarstjóri Zymetech veitti verðlaunum viðtöku í morgun.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís), Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði.
Í fréttatilkynningunni segir: „Zymetech nýtir meltingarensím úr Norður-Atlantshafsþorski og hefur tekist að skapa verðmæta viðbótarafurð úr hráefni sem í gegnum tíðina hefur að langmestu leyti verið fargað. Þannig hefur fyrirtækið þróað afurð sem margfaldar virði þorsksins.
Zymetech framleiðir margs konar húð- og snyrtivörur sem seldar eru undir ýmsum vörumerkjum samstarfsaðila fyrirtækisins, auk Pensim áburðarins sem er sennilega þekktasta vara þeirra hér á landi. Fyrirtækið vinnur nú að þróun lækningavara til meðhöndlunar á sértækum húðkvillum á borð við bólgur, útbrot, sprungna húð og til sáragræðinga.
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.“