Ótrúleg fyrirtæki hafa byggst upp á Íslandi með hugviti Íslendinga. Nú horfa þau mörg hver, í mikilli alvöru, fram á að geta ekki lengur starfrækt höfuðstöðvar sínar hérlendis. „Hjartað“ í rekstrinum fær einfaldlega ekki það súrefni sem til þarf svo það slái í réttum takti. Og sjúkdómurinn sem hrjáir það er að langstærstu leyti heimatilbúinn.
Þarna er átt við fyrirtæki eins og Marel, Össur og CCP. Þau hafa þurft að sætta sig við ýmislegt á eftirhrunsárum hafta til að halda tengslunum við Ísland en nú virðast ætla að verða vatnaskil. Útspil stjórnvalda um að ætla að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu var síðasta hálmstráið hjá mörgum sem tengjast þessum fyrirtækjum. Með því að möguleikanum á aðild væri haldið lifandi var í það minnsta von um að Ísland gæti tengt sig alþjóðlegum mörkuðum og mynt. Nú telja þeir að sá möguleiki sé horfinn og það er ljóst á samræðum við fólk í kringum hluthafa fyrirtækja í verðmætasköpun að baráttan fyrir því að halda höfuðstöðvum þessarra fyrirtækja á Íslandi er að tapast.
Vaxa erlendis
Ástæður þessa eru einfaldar og vel þekktar. Öll fyrirtækin sem um ræðir eru í alþjóðlegri starfsemi. Öll vaxtartækifæri þeirra liggja annars staðar en á Íslandi. Öll eru með umfangsmeiri starfsemi erlendis en á Íslandi. Öll eru að mestu með útlenda fjármögnun sem er á mun betri kjörum en þeim bjóðast nokkru sinni á Íslandi. Öll gera upp og greiða starfsmönnum sínum í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni. Öll myndu vera samkeppnishæfari um starfsfólk ef þau væru staðsett í Bandaríkjunum, Kanada eða á meginlandi Evrópu. Stórir hluthafar í öllum þeirra eru erlendir aðilar. Einu ástæðurnar sem eru fyrir því að þessi fyrirtæki eru enn með höfuðstöðvar á Íslandi eru einfaldlega þær að tilvera þeirra byggir á hugmyndum sem Íslendingar fengu, þeim er stýrt af Íslendingum og tilfinningatengslin við heimahaganna gera flutning þeim mun þungbærari.
Það er samt sem áður ekki langt síðan risastórt alþjóðlegt fyrirtæki, með sterkar rætur á Íslandi, reif sig upp og flutti höfuðstöðvar sínar til Zug í Sviss þar sem skattalegt hagræði er mun meira og, samkvæmt þáverandi forstjóranum Claudio Albrecht, mun hentugra var að ná í „fólk með alþjóðlega reynslu til að starfa þar“. Þetta gerðist árið 2011 og fyrirtækið sem flutti heitir Actavis.
Uppgjör þrotabúa skiptir miklu máli
Með hverjum deginum sem Ísland er fast í höftum og takmörkunum íslensku krónunnar minnka líkurnar á því að snúið verði af þessari brottfararleið hugvitsfyrirtækjanna okkar. Og það eru ekki bara Evrópumálin sem spila þar inn í, þótt þau hafi markað vatnaskil. Allsherjaráætlun stjórnvalda varðandi uppgjör á þrotabúum föllnu bankanna, sem er nátengt möguleikum Íslands á að lyfta nokkru sinni gjaldeyrishöftum, spilar líka stóra rullu. Sú áætlun sem flestir innan íslensks viðskiptalífs virðast sannfærðir um að hrint verði í framkvæmd snýst um að keyra þrotabúin í þrot og láta þau greiða út í íslenskum krónum sem dótturfélag Seðlabanka Íslands leysir til sín frá kröfuhöfum með miklum afslætti en úthlutar síðan aftur til innlendra aðila. Á meðal þessara eigna eru Arion banki og Íslandsbanki, sem eru að mestu leyti í eigu þrotabúa fyrirrennara sinna.
Væntingar hugmyndafræðinga þessarar leiðar eru að með þessu verði hægt að ná stórum hluta eigna þrotabúanna undir yfirráð Seðlabanka Íslands. Áður en ráðist verður í þessa aðgerð á hins vegar að skipta út stjórnendum bankans til að stefna hans gangi meira í takt við stefnu ráðamanna.
Þetta er skoðun sem er að finna víða í atvinnulífinu. Hún er meðal annars sett fram í tölvupósti frá Helga Magnússyni, varaformanni næststærsta lífeyrissjóðs landsins, til ýmissa áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi sem Kjarninn birtir í dag. Hann telur að raunverulega ástæðan að baki breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands sé að koma eigi Arion banka og Íslandsbanka í hendurnar á annars vegar framsóknarmönnum og hins vegar einhverjum sem séu handgengnir Sjálstæðisflokknum. Og þetta verði að gerast á góðu verði. „Helmingaskiptamórallinn er enn í fullu gildi,“ segir Helgi.
Viðspyrna viðbúin
Kröfuhafar föllnu bankanna ætla þó ekki að taka þessum tíðindum þegjandi. Margir þeirra eru með stór veðmál undir hérlendis og hafa fjárfest víða annars staðar á Íslandi en í kröfum á fallna banka. Þeir eru farnir að búa sig undir að fara í hart við íslensk stjórnvöld verði gjaldþrotaleiðin farin. Aðgerðir þeirra munu að einhverju leyti snúast um að koma í veg fyrir að erlendar eignir föllnu bankanna verði fluttar til Íslands á grundvelli skilaskyldu Seðlabankans. Þeim verður hrint í framkvæmd fyrir erlendum dómstólum.
Þeir kröfuhafar sem eiga „gömlu snjóhengjuna“, á fjórða hundrað milljarða króna af kvikum krónum sem eru fastar í skuldabréfum og innstæðum, sýndu klærnar um daginn þegar þeir komu í veg fyrir að fé kæmist inn til Íslands i gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans með því að bjóða þannig að Seðlabankinn gat ekki tekið tilboðum þeirra. Sá ógagnsæi hópur sem á þessar eignir er reyndar talinn mjög fámennur og að hluta til samansettur af Íslendingum sem ómögulegt er að fá upplýsingar um hverjir eru. En þetta olli því að mörg fjárfestingarverkefni á Íslandi sem höfðu beðið eftir afsláttarkrónum fjárfestingaleiðarinnar þurftu að fara á ís fram að næsta útboði.
Framtíð hugmynda er annars staðar
Sá leikur sem stendur yfir mun hafa gríðarleg áhrif á framtíð Íslands. Aðferðafræði stjórnvalda í baráttunni fyrir afnámi hafta virðist snúast um að leggja mikið undir og búast við stórum vinningi. En ef veðmálið tapast mun Ísland sitja einangrað í súpunni. Hér verður til staðar hagkerfi með ónýta mynt, áframhaldandi gjaldeyrishöft og litla möguleika á alþjóðlegum fjármögnunarmörkuðum sem hvílir á örfáum auðlindageirum og bindur framtíðarvonir sínar við skipaflutninga á norðurslóðum og mögulegan olíufund á Drekasvæðinu.
Skapandi iðnfyrirtæki munu ekki þrífast hér. Þau sem eru fyrir munu fara og nýju sprotarnir sem spretta upp munu skrá sig í Delaware eða annarri skattaparadís. Nú þegar er það raunin með mörg þeirra íslensku sprota sem hafa fótað sig á erlendum vettvangi.