Mikil barátta hefur átt sér stað á bak við tjöldin undanfarin misseri í viðskiptalífinu og stjórnmálunum vegna þeirrar stöðu sem fjármagnshöftin, þrotabú föllnu bankanna og ákvörðun stjórnvalda um að draga formlega til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu hefur framkallað. Að hluta snýr hún að vaxandi þrýstingi frá erlendum fjárfestum sem eru í hluthafahópi margra af helstu útflutningsfyrirtækjum Íslands í iðnaði, meðal annars Össurs, Marels og CCP. Þeir spyrja einfaldlega; af hverju eigum við að vera hér? Hvað græðum við á því?
Til þessa hafa íslensk stjórnendateymi og sérfræðiþekking í rannsóknum og þróun verið helsta hindrun þess að fyrirtækin hafi farið formlega úr landi, með tilheyrandi skatttekjumissi fyrir þjóðarbúið og minni ávöxtunarmöguleikum á fjármálamarkaði. Fyrirtækin verða ekki fjarlægð úr landi eins og hendi sé veifað, það er öll starfsemin, en stór skref til viðbótar við þau sem þegar hafa verið stigin verða upphafið að endalokum þess að flaggskip íslensks hugverkaiðnaðar verði hér með rætur til framtíðar litið.
Þetta er örstutt útgáfa af umfjöllun um mögulegt brotthvarf Össurar, Marels og CCP frá Íslandi. Lestu hana í heild sinni og óbirta tölvupósta áhrifamanna í íslensku atvinnlífi um ástandið á Íslandi í nýjasta Kjarnanum hér.