Í dag fer fram stórleikur Barcelona og Real Madrid, El Clasico, á Bernabeu heimavelli Real Madrid. Barcelona er efst í La Liga á Spáni, með 22 stig eftir átta leiki, hefur unnið sjö og gert eitt jafntefli. Markatalan segir sína sögu um hvernig liðið hefur verið að spila; 22-0. Andstæðingum Barcelona hefur ekki enn tekist að skora gegn liðinu í deildinni, og hafa sóknarmenn liðsins farið hamförum, ekki síst snillingurinn Lionel Messi og brasilíski framherjinn Neymar.
Real Madrid er í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig, hefur unnið sex en tapað tveimur. Í síðustu leikjum hefur liðið verið frábært með Cristiano Ronaldo fremstan í flokki. Hann er búinn að skora 15 mörk í fyrstu átta leikjum í deildinni og hefur verið því sem næst óstöðvandi. Óhætt er að segja að mikil eftirvænting ríki fyrir leikinn, ekki síst þar sem Luis Suarez snýr aftur úr leikbanni í leiknum.
Mörg glæsileg mörk hafa verið skoruð í viðureignum þessara liða í gegnum tíðina. Kjarninn tók saman lista yfir fimm glæsileg El Clasico mörk.
- Lionel Messi, 2006/2007. Ótrúleg þrenna Lionel Messi í leiknum er söguleg. Síðasta markið var sérlega glæsilegt. Enginn leikmaður hefur skorað meira í El Clasico, 21 mark. Eiður Smári Guðjohnsen var í fremstu víglínu í þessu sögulega leik, þegar Messi sýndi heimsbyggðinni að hann væri enginn venjulegur 19 ára gutti.
https://www.youtube.com/watch?v=LJENMuDLN4A
- Lionel Messi 2010/2011. Á þessum tíma var Messi, kannski líkt og Ronaldo nú, nánast óstöðvandi. Hann tók leikinn gegn Real Madrid í sínar hendur og sólaði í gegnum vörnina, og lagði boltann snyrtilega neðst í markhornið.
https://www.youtube.com/watch?v=UXtiWLPbXIM
- Cristiano Ronaldo 2011/2012. Stórkostlegt skallamark hjá Ronaldo í úrslitaleik Copa Del Rey. Enginn kemst með tærnar þar sem Ronaldo hefur hælana þegar kemur að sköllum. Magnað mark.
https://www.youtube.com/watch?v=_BZFzuAO0fQ
- Dani Alvez 2012/2013. Stórkostlegt langskot hjá þessum magnaða bakverði. Minnir mann á það hversu glórulaust það var hjá Scolari fyrrverandi landsliðsþjálfara Brasilíu að taka hann út úr liðinu á HM í sumar, án þess að Brasilía hefði verið búið að tapa leik með hann innanborðs, og setja hinn langtum verri Maicon inn í liðið í staðinn.
https://www.youtube.com/watch?v=9d7MPyxKYrI
- Diego Maradona 1983/1984. Það kann að vera að það hafi verið skoruð fallegri mörk í El Clasico. En þetta veður þó að teljast með ótrúlegri mörkum. Maradona var ekki beint laus við sjálfstraust sem leikmaður, og ákveður í þessu marki að leika á varnarmanninn Chendo á marklínunni, og senda hann á fullri ferð með klofið á stöngina, áður en boltanum er rennt inn fyrir línuna. Síðan hleypur hann hlæjandi í burtu. Á Bernebeau. Í El Clasico! Svona gera menn nú frekar á æfingum.
https://www.youtube.com/watch?v=oAQhbQ_EXhk
Leikur Barcelona og Real Madrid hefst klukkan 16:00 í dag.