Þegar farsímavæðingin hafði raungerst, og landlínusímtöl úreltust að mestu, snerist baráttan á fjarskiptamarkaði lengi vel um að ná í viðskiptavini og láta þá hringja og/eða senda mynd- eða smáskilaboð til hvors annars. Því meira sem fólk hringdi og því fleiri skilaboð sem það sendi, því meiri varð arður fjarskiptafyrirtækjanna. Sérstaklega ef viðskiptavinirnir voru erlendis. Þá kostuðu símtölin og skeytasendingarnar oft ótrúlegar upphæðir, oft á tíðum án þess að fyrir rukkuninni væru viðskiptalegar forsendur.
Nú er farsímatímabil fjarskiptageirans að líða undir lok og gagnaflutningatímabilið að taka við. Tíðniheimildir fyrir 3G, fyrstu háhraðakynslóð farsímanetskerfisins, voru boðnar út í lok árs 2006. Kerfið er í raun mun frekar netkerfi en farsímakerfi og gerði gagnaflutning mögulegan. Allt í einu var mögulegt að hlaða niður tónlist og horfa á kvikmyndir eða þætti í símanum sínum.
Nú stendur næsti fasi yfir. 4G-væðingin er í fullum gangi. Skrefið sem verður tekið upp á við með henni er stærra en margir átta sig á. Hraðinn á 4G-tengingu er tíu sinnum hraðari en í 3G og um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
Allir taka við sér
Öll stærstu íslensku fjarskiptafyrirtækin, Síminn, Vodafone, Nova og Tal, hafa nýverið kynnt nýjar þjónustuleiðir sem taka mið af þessum nýja veruleika í notkun. Í grófum dráttum snúast þær um að viðskiptavinir borga ekki lengur fyrir símtöl og skilaboðasendingar heldur greiða þess í stað fyrir ákveðinn megabætapakka. Og verðið fyrir gagnapakkana hækkaði mjög mikið við þessar breytingar.
Þetta er örstutt brot úr umfjöllun Kjarnans um ný viðskiptamódel fjarskiptafyrirtækja. Lestu hann í heild sinni hér.