Íslendingar eru oft fljótir að gleyma. Vandræði sitjandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í skuldaniðurfellingarmálum, makríldeilumálum, Evrópumálum, kjarasamningamálum og alls kyns öðrum málum hafa dregið athyglina frá fortíðinni.
Síðasta ríkisstjórn, mynduð af Samfylkingunni og Vinstri-hreyfingunni-grænu framboði, var þó ekki með allt sitt á hreinu. Þvert á móti tóku meðlimir hennar nokkrar ákvarðanir sem munu sögulega teljast með þeim verstu sem íslensk stjórnvöld hafa nokkru sinni tekið. Kjarninn gerði topp fimm lista yfir þær helstu.
5. Icesave 1
„Ég var nú eiginlega bara orðinn leiður á því að hafa þetta hangandi yfir mér,“ sagði Svavar Gestsson í viðtali við Morgunblaðið 6. júní 2009. Hann hafði þá stýrt samninganefnd Íslands vegna Icesave-reikninganna sem náði samkomulagi sem í daglegu tali er aldrei kallað annað en Icesave 1. Þremur dögum áður hafði Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, sagt Alþingi að ekki stæði til að ganga frá „einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga“.
Skemmst er frá því að segja að allt varð vitlaust í samfélaginu vegna þessa samnings. Bæði þóttu kjörin sem samið var um þess eðlis að Ísland myndi aldrei ráða við þau og stór hluti þjóðarinnar var líka þeirrar skoðunar að ríkið ætti ekkert að axla þessar einkaskuldir Landsbankans. Eftir margra mánaða hark og breytingar voru lögin loks samþykkt á Alþingi 30. desember 2009. Forseti Íslands synjaði þeim staðfestingar nokkrum dögum síðar og málið fór þaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í henni sögðu 93,2 prósent þeirra sem greiddu atkvæði nei við samningnum. Já sögðu 1,8 prósent. Það er líkast til fátt sem klauf þjóðina frá þinginu sínu jafn skarpt og Icesave 1. Og í þann klofning glittir enn í dag.
Smelltu hér til að lesa topp fimm listann í nýjustu útgáfu Kjarnans.