Í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og aðildarferlið til þessa kemur fram að samninganefnd Íslands hafði þegar náð fram margvíslegum undanþágum og sérlausnum í mörgum málum. Í skýrslunni segir enn fremur að mögulegt hafi verið að semja um að íslenska sérhagsmuni í sjávarútvegsmálum, meðal annars það að ekki þurfi sérstaka undanþágu til þess halda veiðum í íslenskri lögsögu á hendi íslenskra stjórnvalda. Hins vegar sé hægt, með einföldum meirihluta aðildarríkja, að breyta þeirri stöðu. Kolbeinn Árnason, sem átti sæti í samninganefnd Íslands og er nú framkvæmdastjóri LÍÚ, staðfesti þennan skilning í viðtali við RÚV í gær en sagði að það hefði verið mat samninganefndarinnar að of mikil áhætta hefði verið í því fólgin að hægt væri að breyta stöðu mála með einföldum meirihluta. Því hefði sú staða verið metin óviðunandi og of áhættumikil.
Í skýrslunni kveður við annan tón en í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem meðal annars segir að verulega litlar líkur séu á því að Ísland geti fengið undanþágur frá grunnregluverki ESB. Í reynd er himinn og haf á milli túlkunar skýrsluhöfunda hjá þessum stofnunum Háskóla Íslands, sem sýnir vel hve rökræðan um þessi álitaefni er lifandi og dýnamísk, ekki síst innan háskólasamfélagsins. Pólitískt er staðan augljóslega snúin og er á það bent í skýrslu Alþjóðastofnunar að deilur innan raða stjórnarflokkanna hafi grafið undan aðildarferlinu og seinkað því, ekki síst málaefnavinnu á sviði landbúnaðarmála.
Þetta er örstutt brot úr fréttaskýringu um skýrslurnar tvær. Lestu hana í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.