Hlutafé MP banka verður fært niður með svokallaðri öfugri jöfnun á aðalfundi bankans, sem er fyrirhugaður 11. apríl næstkomandi, samkvæmt tillögum sem sendar voru til hluthafa á síðustu dögum. Sá sem átti áður fimm hluti myndi eftir breytingu eiga einn, þrátt fyrir að virði eignar hans sé enn það sama. Verðgildi hvers hlutar verður einfaldlega fimmfalt eftir breytinguna.
Ætluðu að sækja sér tvo milljarða
Á hluthafafundi sem MP banki hélt í nóvember 2012 var samþykkt heimild til að auka hlutafé bankans um tvo milljarða króna. Í tilkynningu sagði að þetta ætti að gera til að styðja við útlánavöxt bankans og vera „mikilvægur liður og stórt skref í átt að skráningu bankans á verðbréfamarkað árið 2014“. Í kjölfarið sagði Skúli Mogensen, sem þá var stærsti einstaki eigandi MP banka, að hann ætlaði að taka þátt í hlutafjáraukningunni og verja 17,3 prósent hlut sinn í bankanum.
Þrátt fyrir þessa opinskáu tilkynningu um ætlaða hlutafjáraukningu hefur hún ekki gengið eftir. Þ.e. hvorki hefur tekist að safna þessum tveimur milljörðum króna og núverandi eigendur hafa ekki viljað leggja fram nýtt eigið fé ef undan er skilin 300 milljóna króna hlutafjáraukning sem átti sér stað í fyrrasumar. Síðan að upprunalega tilkynningin var gefin út hefur Skúli skilið við fyrrum eiginkonu sína, Margréti Ásgeirsdóttur. Sem hluti af uppgjöri þeirra á milli við skilnaðinn eignaðist Margrét 8,2 prósent hlut í MP banka. Skúli á nú 9,91 prósent og er ekki lengur stærsti einstaki hluthafi MP banka.
Opnað á sveigjanleika
Í hlutafélagalögum er skýrt að greiða verður krónu fyrir krónu í hlutafjáraukningu. MP banki hefur lent í töluverðu basli með eignir sem bankinn keypti frá gamla MP banka á sínum tíma. Þurft hefur að gjaldfæra stórar upphæðir vegna þess að þær reyndust ekki jafn verðmiklar og reiknað var með. Það hefur því reynst erfitt að sækja nýtt hlutafé á genginu einn eða hærra auk þess sem núverandi hluthafar eru tregari til að leggja meira fé inn eftir að eign þeirra hefur rýrnað vegna þessarra gjaldfærslna.
Að sögn Sigurðar Atla eiga þær breytingar sem nú verður ráðist í að opna á þann sveigjanleika að fara í hlutafjáraukningu á nýju gengi. „Ef að það sem þarf er annað gengi, þá á stjórn þennan möguleika. Það eru margir samverkandi þættir sem valda því að hlutaféð hefur ekki verið aukið fram til þessa. Fyrir það fyrsta var farið af stað í þessa aukningu með það fyrir augum að núverandi hluthafar ætluðu að skrá sig fyrir helmingnum af henni. Um milljarði króna. Svo á einhverjum tímapuntki kemur í ljós að þau plön eru breytt og það hefur áhrif á aðra áhugasama. Félagið hefði ekki farið af stað með þessa hlutafjáraukningu fyrir opnum tjöldum nema að það hefði legið fyrir þessi áhugi núverandi hluthafa. En aðstæður manna geta breyst.“
Einblína á kjarnastarfsemi
Töluverðar breytingar hafa átt sér stað hjá MP banka að undanförnu. Bankinn seldi hlut sinn í GAMMA, féll frá kaupsamningi á meirihluta í Íslenskum verðbréfum og seldi eignaleigustarfsemina Lykill, sem er rétt tveggja ára, til Lýsingar. Aðspurður um hvort til standi að selja fleiri eignir segir Sigurður Atli svo ekki endilega vera. „Það hefur verið stefna okkar frá því seint á árinu 2011 að vera ekki inná smásölubankamarkaði. Fókusinn hefur verið á fyrirtæki og það sem kallað er á bankamáli athafnasama einstaklinga. Við erum að fylgja þeim fókus enn betur en við höfum gert til þessa. Við erum fyrst og fremst að selja eignir sem tengjast ekki alveg okkar kjarnastarfsemi, eins og hlutinn í GAMMA og eignaleigustarfsemina okkar. Að öðru leyti höfum við verið að skoða fjármögnun utan efnahags á sumum eignum en það er ekki búið að ganga frá neinu þar.“
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans snýst sú leið um að fá sjóði í stýringu sjóðstýringafyrirtækja til að koma að fjármögnun á völdum eignum MP banka.
MP banki mun birta upplýsingar um uppgjör ársins 2013 á morgun, fimmtudag.