Á síðustu tveimur árum hefur Mannanafnanefnd samþykkt fleiri eigin- og millinöfn en hún gerði að jafnaði á tímabilinu 2001 til 2012. Í fyrra var 16 nöfnum hafnað, eða tæplega 20% allra eigin- og millinafna sem bárust nefndinni, og árið 2013 var aðeins 13 nöfnum hafnað. Það eru mun færri nöfn en nefndin hafnaði á árunum 2001 til 2012, þegar tæplega 30 nöfnum var hafnað að meðaltali ár hvert, eða þriðjungi allra beiðna sem bárust nefndinni. Dæmi eru um að nöfn sem áður fengust ekki samþykkt hafi síðar hlotið náð fyrir augum nefndarinnar, eftir að óskað var eftir endurskoðun á fyrri ákvörðun þriggja manna nefndarinnar.
Frá ársbyrjun 2001 til ársloka 2014 bárust nefndinni samtals um 1.200 mál sem vörðuðu ný eigin- eða millinöfn, það eru nöfn sem ekki eru skráð á svokalla mannanafnaskrá Þjóðskrár. Það gera að jafnaði 90 nöfn á ári sem bárust nefndinni. Að meðaltali hefur nefndin samþykkt sjö af hverjum tíu nöfnum sem berast.
Færri nöfnum hafnað
Fjöldi nafna sem mannanafnanefnd hafnaði 2001 til 2014 |Create infographics
Myndirnar hér að ofan sýna hversu mörgum nöfnun mannanafnanefnd hafnaði á ári hverju frá 2001 til 2014. Efri myndin sýnir hafnanir sem hlutfall af öllum beiðnum en sú neðri sýnir fjölda hafnana hvert ár. Bæði gröfin sýna glögglega hvernig nefndin hafnaði um þriðjungi allra beiðna frá 2005 til 2010, en samþykkti mun fleiri frá 2011.
Ef tímabilið frá 2005-2010 er borið saman við tímabilið 2011-2014 sést munurinn vel. Á fyrra tímabilinu er 36,5% umsókna hafnað af nefndinni. Á því seinna er tæplega 21% umsókna hafnað. Ef litið er til fjölda hafnanna, þá var 35 umsóknum hafnað að meðaltali á árunum 2005-2010 en einungis 18 á síðustu 4 árum.
Hvorki breytingar á lögum um mannanöfn né á reglum nefndarinnar skýra linari afstöðu nefndarinnar. Lögin hafa einungis tekið lítilsháttar breytingum frá þvi þau tóku gildi þann 1. janúar 1997, flestar breytingarnar varða eingöngu breytingar á málefnasviðum ráðuneyta og hafa ekki tekið til inntaks laganna.
Christa og Cesar unnu
Dæmi eru um að nöfnum sem eitt sinn var hafnað af nefndinni hafi fengist samþykkt síðar. Sem dæmi taldi nefndin árið 2006 að kvenmannsnafnið Christa og karlmannsnafnið Cesar uppfylltu ekki skilyrði um íslensk mannanöfn. Í tilviki Cesars var bent á að bókstafurinn „C“ sé ekki í íslensku stafrófi og í tilviki Christu sagði nefndin að samstafan „ch“ teljist ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Þrátt fyrir að tvær íslenskar konur hafi á þeim tíma borið nafnið, þá sé það ekki nóg til að uppfylla skilyrði nefndarinnar sem eru meðal annars:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum (með Íslendingum er átt við þá íslensku ríkisborgara sem eiga eða hafa átt lögheimili hér á landi);
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
En viti menn, á síðasta ári tók mannanafnanefnd fyrir beiðnir um endurskoðun á niðurstöðu sinni um að hafna nöfnunum tveimur, og fengust þau bæði samþykkt. Cesar má heita Cesar og Christa má heita Christa. Fleiri svipuð dæmi er að finna í úrskurðum mannanafnanefndar frá 2001, til dæmis karlmannsnafnið Hávarr sem var þrívegis hafnað, fyrst árið 2005, þar til það var loks samþykkt árið 2010.
Ætlað að koma í veg fyrir „ama“
Tilvist mannanafnanefndar er umdeild og lögðu þingmenn Bjartar framtíðar, auk þriggja þingmanna Pírata, tveggja framsóknarmanna og þriggja sjálfstæðismanna, fram frumvarp á síðasta þingi þar sem lagt er til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana verði felld brott. Nokkrar vikur eru síðan frumvarpið var lagt fram og er það nú í nefnd.
Þeir sem talað hafa fyrir aflagningu mannanafnanefndar hafa einkum bent á það ójafnrétti sem felst í ákvarðanavaldi hennar, þ.e. að einstaklingur sé bundinn ríkisvaldi um hvað hann megi heita. Óttarr Proppé, þingmaður og flutningsmaður frumvarpsins um aflagningu nefndarinnar, sagði í viðtali við Mbl.is í nóvember að málið snérist um mannréttindi og jafnræði. „Að við treystum einstaklingunum sjálfum fyrir því að ákveða hvað þeir heita og göngum út frá því að einstaklingar taki þá ákvörðun, fyrir sína hönd og barnanna sinna, ekki af léttúð. Og það sé ekki rétt að stjórnvöld stjórni því hvernig fólk kennir sig,“ sagði hann. Benda má á að Óttarr heitir einmitt nafni líku mörgum þeim sem mannanafnanefnd hefur ítrekað hafnað, það eru karlmannsnöfn sem enda á tveimur R.
Fylgjendur nefndarinnar telja hana gegna hlutverki sem varðar verndun móðurmálsins, auk þess sem það er beinlínis kveðið á um í lögunum um mannanöfn að eiginnafn megi ekki geta orðið nafnbera til ama. Túlkun á því hvaða mannanafn getur verið einstaklingi til ama er lögð í hendur mannanafnanefndar.
„Erlendum“ nöfnum hafnað
Þegar þau eigin- og millinöfn sem nefndin hefur tekið fyrir frá árinu 2001 eru skoðuð, samtals um 1.200 talsins, sjást fá dæmi þar sem hægt er að ímynda sér að tiltekið nafn geti valdið ama. Nefndin hafnaði nafninu Eldflaug árið 2013, en hafa ber í huga að sú bón var lögð fram af lögráða einstaklingi, og eru fjöldamörg dæmi þess að fullorðnir vilji fá að breyta eigin nafni.
Stór hluti þeirra nafna sem nefndin hafnar eru raunar góð og gild nöfn víða erlendis. Í fyrra var nöfnunum Michael, Clinton, Diamond, Lady, Karma, Hector, Duane og Fletcher öllum hafnað þar sem þau þóttu ekki nægilega íslensk. Þessi erlendu nöfn, átta talsins, eru helmingur allra nafna sem nefndin hafnaði í fyrra. Hin nöfnin voru millinöfnin Dalberg og Vilberg, og eiginnöfnin Íshak, Míriel (Míríel var samþykkt), Sveinnóli, Kaia, Haugeland og Huxland.
Þessi afstaða mannanafnanefndar, að samþykkja ekki „erlend“ mannanöfn hefur valdið nafnberum vandræðum, eins og bæði innlendir og erlendir fjölmiðlar greindu frá á liðnu ári. Duncan og Harriet Cardew, sem eru 10 og 11 ára, heita Drengur og Stúlka í Þjóðskrá vegna þess að mannanafnanefnd samþykkti ekki nöfnin þeirra árið 2010, og olli því að þau fengu ekki útgefið íslenskt vegabréf.
Og hvað má barnið þá heita, eða sá sem vill af einhverri ástæðu breyta nafninu sínu? Í það minnsta ekki þetta: