Rakel Þorbergsdóttir hefur verið ráðin fréttastjóri á RÚV. Rakel hefur gegnt stöðu varafréttastjóra á fréttastofu RÚV undanfarið, en hún tekur við fréttastjórastöðunni af Óðni Jónssyni sem hverfur til annarra starfa á RÚV. Óðinn mun hins vegar starfa við hlið Rakelar fyrst um sinn.
Alls sóttu tólf um fréttastjórastöðuna, þeirra á meðal Benedikt Sigurðsson aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðhera, Heiðar Örn Sigurfinnsson, Jóhann Hlíðar Harðarson og Pálmi Jónasson fréttamenn á RÚV og Jóhann Hauksson blaðamaður.
Eftir að umsækjendahópurinn var skorinn niður, stóðu fjórir þeirra eftir um hituna eins og Kjarninn greindi frá á mánudaginn. Þau þrjú sem komu til álita um fréttastjórastöðuna auk Rakelar, voru Svavar Halldórsson fyrrverandi fréttamaður á RÚV, Ingólfur Bjarni Sigfússon yfirmaður nýmiðladeildar RÚV og Sigríður Hagalín Björnsdóttir varafréttastjóri. Kjarninn greindi frá því í dag að Sigríður hefði verið boðuð á fund hjá Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra í morgun ein umsækjenda.
Þá var Frank Þórir Hall ráðinn dagskrárstjóri yfir Rás 2, Þröstur Helgason verður dagskrárstjóri Rásar 1, Skarphéðinn Guðmundsson var endurráðinn sem dagskrárstjóri Sjónvarpsins, sem og Ingólfur Bjarni Sigfússon sem nýmiðlastjóri RÚV.