Guðlaugur Sverrisson, fulltrúi Framsóknarflokks í stjórn RÚV, nefndi húsnæði Osta- og smjörsölunnar að Bitruhálsi 2 sem mögulegt húsnæði undir starfsemi stofnunarinnar, á fundi hjá húsnæðismálanefnd RÚV á dögunum. Þetta staðfestir Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV, en hann á einnig sæti í húsnæðismálanefndinni. Umrædd nefnd hefur húsnæðismál RÚV til skoðunar, en eins og kunnugt er stendur til að selja húsnæði stofnunarinnar við Efstaleiti.
Húsnæði Osta- og smjörsölunnar við Bitruháls er í eigu Kosts ehf., sem er félag í eigu Auðhumlu svf., sem er jafnframt eigandi Mjólkursamsölunnar. Auðhumla er í eigu um sjö hundruð mjólkurframleiðanda í landinu. Húsið er rúmlega 4.700 fermetrar að stærð, en því fylgir ríflega 33.000 fermetra lóð. Samkvæmt Þjóðskrá hljóðar fasteignamat hússins upp á röskar 705 milljónir króna og brunabótamat upp á 940 milljónir.
Þarf um 8000 fermetra húsnæði
Samkvæmt þarfagreiningu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á húsnæðismálum RÚV, þarf stofnunin um 5000 fermetra undir starfsemi og um 3000 fermetra geymsluhúsnæði undir búnað og annað sem viðkemur starfseminni. Í húsnæðismálanefnd RÚV hefur þó enn ekki verið tekin afstaða til þess hversu stórt húsnæði stofnunin þarf, hún mun taka tillit til breyttra áherslna í starfsemi RÚV sem enn liggja ekki að fullu fyrir.
Í samtali við Kjarnann vildi Guðlaugur Sverrisson ekki láta hafa neitt eftir sér, en ítrekaði að hann hefði lagt til húsnæði Mjólkursamsölunnar sem dæmi um húsnæði sem gæti hentað starfsemi RÚV og væri til. Ljóst er að fermetraverðið á Bitruhálsi er mun lægra en við Efstaleiti, en þá hefur Korputorgið sömuleiðis verið nefnt sem mögulegt húsnæði undir RÚV.
Áhugi á núverandi húsnæði RÚV
Samkvæmt heimildum Kjarnans er nokkur áhugi á að kaupa núverandi húsnæði RÚV við Efstaleiti, en húsnæðið hefur enn ekki verið auglýst til sölu. Á meðal áhugasamra eru verktakafyrirtæki og rekstrarfélög. Þá kemur sömuleiðis til greina að flytja starfsemi RÚV af efri hæðunum í Efstaleiti og auglýsa þær til útleigu. Húsnæðismálanefnd stofnunarinnar veltir öllum mögulegum kostum fyrir sér.