Sparisjóðurinn í Keflavík virðist, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina, hafa verið einna verst rekinn allra sparisjóðanna. Vaxtamunur hans var til að mynda oftast lægri en hjá öllum hinum sjóðunum, útlán hans virðast hafa verið ótrúlega illa undirbyggð, afkoma sjóðsins var nánast einvörðungu bundin við gengi hlutabréfa sem hann átti og samkvæmt heimildum Kjarnans er embætti sérstaks saksóknara að rannsaka nokkur mál tengd honum.
Vegna þessara þátta var afkoma sjóðsins af kjarnarekstri neikvæð frá árinu 2003 og fram að þeim degi þegar hann féll. Samtals nam tapið 30 milljörðum króna, en þorri þeirrar upphæðar kom til á árunum 2008 og 2009. Til að setja slakan undirliggjandi rekstur sjóðsins í samhengi nam tap af kjarnarekstri hans, hefðbundinni bankastarfsemi, 700 milljónum króna á árinu 2006 þrátt fyrir að kynntur hagnaður fyrir skatta væri tæpir 5,6 milljarðar króna.
Vildi vera litla lestin sem gat
Ef einhver sparisjóðanna vildi fá að vera litla lestin sem gat þá var það Sparisjóðurinn í Keflavík. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi sparisjóðanna fimmfölduðust eignir hans á fimm árum og námu samtals 98 milljörðum króna í lok árs 2008. Tvennt skipti mestu máli fyrir þennan vöxt: útlán sjóðsins höfðu fimmfaldast á tímabilinu og virði hlutabréfa, að mestu óbein eign í Existu í gegnum fjárfestingarfélagið Kistu og í Icebank/Sparisjóðabankanum, hækkaði mikið. Í árslok 2006 voru til dæmis nærri 70 prósent af öllu eigin fé sparisjóðsins bundin í hlutabréfum í Existu, annaðhvort beint eða óbeint. Þá voru ótalin áhrif Existu í Sparisjóðabankanum, sem sparisjóðurinn átti tólf prósent í.
Auk þess yfirtók sjóðurinn nokkra minni sjóði víða um land, sem leiddi til þess að eignasafnið stækkaði.
Þetta er örstutt brot úr ítarlegri umfjöllun Kjarnans um Sparisjóðinn í Keflavík út frá skýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi sparisjóðanna. Lestu hana i heild sinni hér.