Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna var afhent forseta Alþingis í dag, en nefndin var skipuð í ágúst 2011. Á sama tíma var skýrslan afhent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sem fjallaði um efni og niðurstöður skýrslunnar á fundi sínum í kjölfarið.
Rannsóknarnefnd Alþingis kynnir nú niðurstöður skýrslunnar fyrir blaðamönnum, en skýrslan er í sjö bindum og telur hátt í tvö þúsund blaðsíður. Á blaðamannafundinum upplýsti Hrannar Már S. Hafberg formaður rannsóknarnefndarinnar að 21 mál hafi verið tilkynnt til Ríkissaksóknara. Þau ákvæði laga sem málin snerta geta öll varðað fangelsisrefsingu. Rannsóknarnefndin tók þá ákvörðun að nafngreina ekki viðkomandi né lýsa atvikum nánar í viðkomandi málum. Þá hefur Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari upplýst að um 10 mál tengd sparisjóðunum hafi komið hinn á borð embættisins.
Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir ber rannsóknarnefnd Alþingis að tilkynna ríkissaksóknara ef grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála. Nefndin hefur ekki á hendi sakamálarannsókn.
Af þeim málum sem þegar hafa verið til rannsóknar og tengjast málefnum sparisjóðanna, hefur tveimur verið lokið með þremur dómum Hæstaréttar, auk þess sem einum héraðsdómi hefur verið áfrýjað til réttarins. Hæstaréttardómarnir sem rannsóknarnefndin vísar til tengjast Exeter-málinu svokallaða þar sem Ragnar Z. Guðjónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins og Styrmir Þór Bragason fyrrverandi forstjóri MP-Banka hlutu þunga fangelsisdóma, og tveggja og hálfs árs fangelsisdómur yfir Viggó Þóri Þórissyni fyrrverandi framkvæmdastjóra Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna fyrir tilraun til fjársvika.