Umferðaróhapp átti sér stað í Limpopo-héraði í Suður-Afríku á sunnudag þegar pallbíl var ekið inn í hóp fólks sem var að skera sér kjöt úr dauðum flóðhesti í vegkantinum.
Flóðhesturinn drapst er hann varð fyrir vörubíl á laugardeginum, en hræ hans hafði dregið að fjölda fólks frá nærliggjandi þorpum sem skar sér kjötbita úr dauðum flóðhestinum.
Ökumaður pallbílsins sá ekki hræið í vegkantinum sökum myrkurs og keyrði inn í hóp fólks sem var að skera sér flóðhestakjöt til matar, með þeim afleiðingum að átta létust og tólf slösuðust.
„Fólkið var í góðri trú að sækja sér ókeypis kjöt, og það er mjög sorglegt að þessi atburður skyldi eiga sér stað,“ er haft eftir talsmanni lögregluyfirvalda í Limpopo-héraði í þarlendum fjölmiðlum. „Þetta er ekki atburður sem við eigum að venjast allajafna á þessum slóðum.“
Ökumaður pallbílsins, sem er einn hinna slösuðu, á yfir höfði sér ákærur fyrir manndráp af gáleysi þegar hann yfirgefur spítalann þar sem hann dvelur.