Yfirvöld Tennessee-ríkis í Bandaríkjunum höfnuðu á dögunum beiðni starfsmanns PETA, sem eru bandarísk samtök sem berjast fyrir réttindum og velferð dýra, um einkanúmerið ILVTOFU, þar sem það þótti of klámfengið.
Dýraverndunarsinninn Whitney Clark hugðist sýna ást sína á tófú í verki með því að setja einkanúmerið á bifreiðina sína. Yfirvöld í Tennessee höfnuðu beiðni hennar með þeim rökum að hægt væri að túlka einkanúmerið á klámfenginn hátt.
Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs hafa fleiri starfsmenn PETA óskað eftir sama einkanúmerinu í öðrum ríkjum Bandaríkjanna, án árangurs.
„Það eina sem ég vildi gera var að dreifa vegan-boðskapnum með númeraplötunni minni,“ er haft eftir Clark í erlendum fjölmiðlum. „Það virtist rökrétt að breyta númeraplötunni í eitthvað sem ég trúi á.“
Á samfélagsmiðlum lagði fólk til að Clark myndi breyta skilaboðunum yfir í TOFULVR, en Clark ákvað engu að síður að sækja bara um venjulega númeraplötu.