Þegar Leandra Becerra Lumbreras fæddist í litlu þorpi í Mexíkó hinn 31. ágúst árið 1887 var enn rúmlega ár í að Kobbi Kviðrista hrelldi Lundúnabúa með hrottafengnum glæpum sínum. Á þeim tíma hafði heldur engin heyrt um útvarp, körfubolta eða flugvélina.
Ættingjar Leöndru fullyrða að gamla konan sé 127 ára gömul og þar með elsta manneskja sem nokkurn tímann hefur lifað á jörðinni. Heimsmetabók Guinness neitar hins vegar að viðurkenna langlífi Leöndru, þar sem fæðingarvottorð hennar glataðist fyrir fjörutíu árum og því er engin leið að fá aldur hennar staðfestan.
Ættingjar gömlu konunnar, sem lifði tvær heimsstyrjaldir, mexíkósku byltinguna, kalda stríðið og internetöldina, segja hana ótrúlega erna og hún geti rifjað upp nákvæmar sögur úr löngu lífshlaupi sínu.
Leandra, sem vann áður sem saumakona, býr í borginni Zapopan í Mexíkó, en hún lifði öll fimm börnin sín. Hún á tuttugu barnabörn, 73 barnabarnabörn og 55 barnabarnabarnabörn.