Hinn 16 ára gamli Liam Nazarek frá bænum Pincher Creek í Kanada hóf að safna hári fyrir rúmu ári svo hann gæti gefið það samtökum sem búa til hárkollur fyrir krabbameinssjúklinga. Uppátækið hefur hins vegar einhverra hluta vegna mætt harðri andstöðu hafnaboltaþjálfara hans, Bryan MacKenzie, sem bannaði Liam að spila með liðinu nema hann færi í klippingu.
Móðir Liams, Kim Jorgenson, var skiljanlega ósátt við ákvörðun þjálfarans og átti við hann orðastað eftir leik liðsins á dögunum, sem hún tók upp á símann sinn. Myndbandið og frétt um málið er hægt að sjá hér.
Eftir að myndbandinu var dreift á samfélagsmiðlum sendi hafnaboltasamband Pincher Creek frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir stuðningi við hafnaboltaþjálfarann og móðirin er gagnrýnd harðlega fyrir myndbandsupptökuna.
Liam Nazarek hefur formlega verið rekinn úr liðinu en annað hafnaboltalið í nágrenninu hefur boðið honum að spila með því.