Karlmaður í Georgetown í Bandaríkjunum vaknaði upp við vondan draum á dögunum, þegar hann varð var við innbrotsþjóf á heimili sínu.
Maðurinn vaknaði, þar sem kona hans lá sofandi við hliðina á honum, reis úr rekkju, greip skammbyssu og fór út úr svefnherberginu.
Innbrotsþjófurinn varð viti sínu fjær af hræðslu þegar húseigandinn birtist nakinn, með úfið hár og skammbyssu, en húseigandinn skartar sömuleiðis forláta húðflúri af manninum með ljáinn, eða dauðanum sjálfum. „Ég veit ekki hvort hann var meira hræddur við mig eða byssuna,“ segir húseigandinn í þarlendum fjölmiðlum sem fjalla um málið.
Innbrotsþjófurinn, þá titrandi af hræðslu, bað húseigandann afsökunar áður en hann skutlaði sér, með hausinn á undan, út um glugga á fyrstu hæð hússins.
Húseigandinn gat séð móta fyrir líkama innbrotsþjófsins á grasflöt fyrir utan húsið daginn eftir, þar sem innbrotsþjófurinn lenti eftir að hafa kastað sér út um gluggann.