Mani Manithan hóf heldur óvenjulega „friðargöngu“ fyrir 25 árum. Mani, sem býr á Indlandi og er mikill friðarsinni, ákvað upp á sitt eindæmi fyrir aldarfjórðungi að fara allra sinna leiða afturábak. Með athæfinu vildi indverska afturgangan leggja lóð sín á vogarskálarnar í báráttunni fyrir heimsfriði.
„Að ganga venjulega er orðið mun meiri áskorun fyrir mig í dag. Hugur minn hefur algjörlega gleymt hvernig slíkt er gert, en mér finnst mjög gott að ganga svona. Líf mitt hefur verið viðburðarríkt með sigrum og ósigrum, og ég ætla að halda áfram að ganga afturábak þar til við náum heimsfriði,“ segir Mani í samtali við erlenda fjölmiðla.
„Á síðustu árum hefur hryðjuverkastarfsemi á alþjóðavísu bara aukist. Það hafa orðið svo margar sprengingar, og ungt fólk á villigötum í svo mörgum tilfellum sem ber ábyrgð á voðaverkunum. Ég hef gengið afturábak í 25 ár til að fordæma slíka verknaði, það eina sem ég vil er heimsfriður og ég mun aldrei gefast upp.“