Repúblikaninn Todd Rokita, sem á sæti í fulltrúadeild bandaríska þingsins, telur að innflytjendabörn frá Mið-Ameríku séu mögulega smituð af Ebólaveirunni.
Þingmaðurinn lét ummælin falla í útvarpsviðtali á dögunum, en Ebólaveiran hefur dregið um átta hundruð manns til bana í Vestur-Afríku á árinu.
Þá fullyrti Rokita í áðurnefndu útvarpsviðtali að almenningi stafaði töluverð heilsufarsógn af því að börnunum væri komið í fóstur hjá bandarískum ættingjum þeirra eða velgjörðarmönnum tímabundið, áður en þau væru send aftur úr landi, eða til frambúðar.
Engin dæmi eru um að nokkur hafi smitast af Ebólaveirunni á vesturhveli jarðarinnar, og ekkert þeirra ríflega þrjátíu þúsund barna sem komið hefur verið fyrir í fóstur í Bandaríkjunum hefur greinst með veiruna, að því er fram kemur í upplýsingum frá bandarísku Flóttamannastofnuninni.
Þá undirgangast innflytjendabörn ítarlega læknisskoðun og bólusetningu við komuna til Bandaríkjanna.