Nýjasta viðbótin við vörulínu skyndibitakeðjunnar Kentucky Fried Chicken (KFC) er skreyttur kjúklingabiti. Um er að ræða skraut sem hefð er fyrir að ungir menn færi stúlkunum sem þeir bjóða á lokaball amerískra framhaldsskóla.
Vöndurinn, eða skreytingin, er samstarfsverkefni KFC og blómabúðar í Louisville í Kentucky, en áhugasamir viðskiptavinir geta pantað hana á netinu. Skreytingin kostar litla tuttugu Bandaríkjadali.
Kjúklingabitinn kemur ekki með í pakkanum, en viðskiptavinirnir þurfa ekki að örvænta því með skreytingunni fylgir fimm dollara gjafakort fyrir einum kjúklingabita hjá KFC, þar sem þeir geta svo valið sér bita að eigin vali, sem best passar við kjólinn sem á að klæðast hverju sinni.
Uppátæki KFC hefur vakið athygli fjölmiðla vestan hafs, sem og auglýsingin á nýjustu vöru skyndibitarisans. Kjúklingaskreytingin hefur í senn verið auglýst sem glæsileg og próteinrík, og hefur hlotið góðar viðtökur.