Nýtt æði virðist hafa tekið við af „plankinu“ hjá drukknum breskum ferðalöngum í fríinu. Hið nýja æði hefur hlotið nafnið „logging“ og er mun vafasamara og ógeðslegra.
„Logging“ snýst um að kúka í þéttsetna sundlaug, lauma sér upp úr og fylgjast svo með sundlaugargestum flýja í ofvæni þegar sá brúni uppgötvast á laugarbotninum.
Hótel á vinsælum áfangastöðum breskra steggjunar- og gæsahópa hafa neyðst til að hóta hverjum þeim sem gerist sekur um athæfið sekt að andvirði 1.400 sterlingspund. Hótel þar sem „logging“ er orðið að viðvarandi vandamáli hafa sent gestum sínum bréf þess efnis.
Lögmaður sem sérhæfir sig í málum tengdum ferðalögum fullyrðir að fólk hafi veikst vegna athæfisins. „Sumum hálfvitum finnst fyndið að kúka í þéttsetna sundlaug og halla sér aftur á meðan skelfingarástand skapast í lauginni þegar fólk reynir að komast upp úr. Þessi tilvik minna helst á atriði úr bíómyndunum um Ókindina.“