Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.
arni-helgason.jpg
Auglýsing

Facebook hlýtur að vera það besta sem hefur komið fyrir afmæli, allavega frá því að afmælissöngurinn var saminn eða afmæliskakan fundin upp. Það er orðin hátíðleg stund að kvöldi afmælisdagsins að koma sér vel fyrir í sófanum, fá sér kannski konfekt og heitt kakó og smjatta á afmæliskveðjunum sem hafa hrúgast inn á vegginn. Maður dundar sér við þetta, les þær hægt og jafnvel upphátt fyrir viðstadda, lækar, svarar þeim hressustu og lokar þessu svo með hinum sígilda „maður verður alveg meyr að lesa allar þessar kveðjur“ status.

Jólakort okkar tíma?


Ég að lesa afmæliskveðjurnar mínar á Facebook er líklega svipað óþolandi fyrir alla í kring og foreldrar að lesa jólakortin á meðan pökkunum var haldið í gíslingu fyrir börnunum. Er ég einn um að hafa hugleitt að stofna stuðnings­hóp fyrir börn sem þurftu að sitja undir langdregnum jólakortalestri foreldra sinna?

„Nei sko, Palli og Mæja senda okkur jólakort – muniði ekki eftir þeim, krakkar? Ha, muniði ekki eftir Palla og Mæju? Jú, þið vitið alveg hver þau voru. Palli vann einu sinni með honum pabba þínum og Mæja er konan hans. Indælisfólk alveg. Þau sem sagt senda hugheilar kveðjur til okkar allra.“

Samt er maður eins og nútímaútgáfa af jólakorta­lestrinum. Ég átti afmæli á dögunum og fékk afmæliskveðju-fixið mitt. Það merkilega var samt að stærstur hluti af þessum kveðjum var frá fólki sem ég er ekki í neinu sambandi við, hvorki í raunverulega lífinu né á samfélags­miðlunum. Samt var þetta fólk svo indælt að setja kveðju á vegginn hjá mér og á mínar hjartans þakkir.

Kumpánlegi kunninginn


Sjálfur stunda ég þetta; þegar Facebook hnippir í mann og segir manni hverjir eiga afmæli þann og þann daginn fer ég og set afmæliskveðjur á fólk sem maður kannski vann einu sinni með eða var með í skóla en hefur annars ekki hitt heillengi. Ef maður væri beðinn um að lýsa tengslum sínum við viðkomandi væri nærtækast að segjast þekkja hann eða við værum í besta falli kunningjar. Engu að síður hikar maður ekki við að smella á hann einni eldhressi afmæliskveðju.

Auglýsing

Ég velti því fyrir mér hvort maður myndi jafnoft óska þessum kunningjum sínum til hamingju með afmælið ef maður hitti þá úti á götu. Sennilega ekki. Þá þarf að stoppa, setja upp kumpánlega-smalltalk andlitið og byrja að skjóta út í myrkrið: „Jæja, hvað er eiginlega að frétta af þér?“ og „Bíddu... hvar ert þú aftur að vinna núna“ og „Voruð þið ekki komin með börn?“ Þessi samskipti eru hektísk og útheimta heilmikið framlag frá báðum aðilum, sem eru á fullu að reyna að rifja eitthvað upp um hvorn annan á meðan. Afleiðingarnar eru þær að fólk fer að forðast þessar aðstæður og er þar af leiðandi ólíklegt til að óska hvort öðru til hamingju með afmælið í eigin persónu. Samfélagsmiðlarnir leyfa okkur að sneiða framhjá öllum svona óþægilegheitum og mæta bara inn á vegginn hjá fólki sem við höfum ekki séð heillengi, skilja eftir kveðju og fara. Ekkert vesen og engar pínlegar tilraunir við að giska á hvað hinn sé að gera í dag.

Það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær Facebook fer að taka af fólki ómakið í öðrum erfiðum aðstæðum og gera notendum kleift að klára málin rafrænt. Þetta gæti t.d. tekið sambandsslit á nýtt level – maður fengi bara huggulega áminningu af og til: „You have been in a relationship for 5 years now. Do you want to continue?“ Og ef maður neitaði fengi makinn bara tilkynningu þess efnis. Myndi spara margar erfiðar samræður.

„T.H.M.D.“


Rafrænu afmæliskveðjurnar eru með ýmsu móti. Algengustu kveðjurnar eru einhvers konar afbrigði af „Til hamingju með daginn“ eða „Til lukku með daginn“ og svo er broskall, afmælisköku­kall eða upphrópunarmerki algeng ending. Sumir lokuðu kveðjunum sínum reyndar með punkti, sem hlýtur að gleðja íslenskukennara landsins, en þýðir það að næsta setning sem viðkomandi skrifar á internetinu verði að byrja á stórum staf?

Sumir ávarpa mann með nafni, sem mér finnst áhugavert. „Til hamingju með daginn Árni“ – svolítið eins og kennarinn manns sé að tala. Aðrir fara þá leið að taka eitthvað stutt – eins og „Innilega“, „Vel gert“ eða „Nei, sko!“. Stutt og laggott. Ýmsir vinna með „hamingjuóskir“, til dæmis „Innilegar hamingjuóskir“ eða „Hamingjuóskir í tilefni dagsins“, en í einni kveðjunni, sem mér þótti eiginlega standa upp úr, stóð bara „Hamingjuóskir“ og ekkert meir. Þetta er væntanlega þýski skólinn í afmæliskveðjum, að segja eingöngu það nauðsynlegasta, og vekur þá spurningu hvort við munum einhvern tíma sjá fólk segja bara „Afmæliskveðja“.

Meistarar og skvísur


„Meistari“ er algengt ávarp í dag til karlmanna og dúkkaði upp í þó nokkrum kveðjum til mín. Karlmenn eru ávarpaðir sem meistarar og konur sem skvísur, hversu eðlilegt sem það er nú.

Reyndar er það umhugsunarefni hversu hratt „meistarinn“ hefur gjaldfallið í tungumálinu að undanförnu. Einu sinni var þetta hugtak bara notað nokkrum sinnum á ári og eingöngu á afar virðulegum vettvangi, kannski í Lesbók Moggans, og þá um einhverja útvalda andans jöfra. Nú er annar hver maður meistari og yfirleitt af litlu tilefni.

Sjálfur er ég ekki barnanna bestur og dreifi meistara­nafnbótinni eins og nammi og til fólks sem ég þekki ekki einu sinni. Ákveðinn lágpunktur á þeirri vegferð var sennilega þegar pizzasendillinn bankaði að dyrum á dögunum. Mér til varnar útnefndi hann mig sem „vin“ þegar hann rétti mér pizzuna en það breytir því ekki að tveir menn, sem áttu samskipti í mesta lagi í hálfa mínútu, gengu burt sem „meistari“ og „vinur“.

Ég verð illa svekktur ef ég fæ ekki afmæliskveðju frá honum næst.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiPistlar
None