Nítján ára gamall bandarískur karlmaður, Daniel J. Calhon, varð valdur að þriggja bíla árekstri í undirgöngum í Oregon-ríki á dögunum. Calhon hélt í sér andanum á leið sinni í gegnum göngin, með þeim afleiðingum að hann leið út af og keyrði framan á jeppa sem kom akandi úr gagnstæðri átt.
Báðir bílarnir skullu utan í veggi ganganna áður en þriðji bíllinn, pallbíll, skall á þeim. Calhon og farþegi hans voru fluttir á slysadeild eftir áreksturinn með minniháttar meiðsli, ásamt ökumanni og farþega jeppabifreiðarinnar. Aðrir slösuðust ekki.
Haft er eftir lögregluyfirvöldum í Oregon í bandarískum fjölmiðlum að sumir geri sér að leik að halda í sér andanum á leið í gegnum undirgöng, eða vegna hjátrúar. Göngin þar sem áreksturinn varð eru 235 metra löng, sem þýðir að bifreið á löglegum hraða hefði verið tíu sekúndur í gegnum göngin.
Hinn andstutti Calhon var kærður fyrir að stofna lífi og limum vegfarenda í hættu með athæfinu.