Uppátæki Pizza Hut í bænum Mount Waverley í Melbourne, sem var ætlað til að trekkja að viðskiptavini, hefur vakið mikla reiði og hneykslað almenning. Hörð viðbrögð almennings má rekja til nýrrar auglýsingaherferðar, eða tilboðs, þar sem auglýst var að lítið gæludýr, frá gæludýrabúð í nágrenninu, myndi fylgja með í kaupbæti við kaup á tíu stórum pítsum.
Uppátækið fékk grimma útreið á samfélagsmiðlum og var fyrirtækið harðlega gagnrýnt fyrir að ætla að gefa viðskiptavinum sínum dýr eins og leikföng.
Í kjölfarið höfðu dýraverndunarsamtök samband við gæludýrabúðina, þar sem viðurkennt var að auglýsingaherferðin hefði verið „slæm hugmynd“.
Skömmu síðar sendi veitingakeðjan frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að hin „vanhugsaða“ og „óviðeigandi“ auglýsingaherferð hefði hvorki verið borin undir né samþykkt af Pizza Hut-keðjunni í Ástralíu. Í framhaldinu voru hinar umdeildu auglýsingar fjarlægðar.