Frammistaða Guillermo Ochoa, markvarðar mexíkóska landsliðsins, á HM í Brasilíu hefur vakið verðskuldaða athygli. Hann sýndi mörg snilldartilþrif á milli stanganna á heimsmeistaramótinu, til að mynda á móti gestgjöfum Brasilíu, en lið hans féll óverðskuldað úr keppni á HM í vikunni er það tapaði fyrir sigurstranglegu liði Hollendinga. Fyrir heimsmeistaramótið spilaði Ochoa með franska liðinu Ajaccio, en samningur hans við liðið rann út skömmu áður en HM í Brasilíu hófst.
Hæfileikar Ochoa hafa vakið athygli margra stórliða í Evrópu, sem renna nú hýru auga til markvarðarins, en þeirra á meðal ku vera ensku úrvalsdeildarliðin Arsenal og Liverpool.
Einn eldheitur stuðningsmaður Ajaccio hefur nú brugðið á það ráð að auglýsa fjölskylduna sína og húsið til sölu á netinu svo að markmaðurinn fari hvergi. Söluandvirðið, litlar sextán milljónir Bandaríkjadala, hyggst hann nefnilega láta renna til Ajaccio svo að liðið geti borgað Ochoa laun sem nema sextíu þúsund sterlingspundum á viku.